Friðað hús verður fjarlægt verði tillaga samþykkt

Veghús við Veghúsastíg 1.
Veghús við Veghúsastíg 1. Ljósmynd/Hilmar Þór Björnsson

Fyrir liggur tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Reykjavík sem felur meðal annars í sér að byggingar á lóð númer 1 við Veghúsastíg verði fjarlægðar. Húsið sem þar stendur, Veghús, er 117 ára gamalt, var byggt árið 1899 og er friðað með lögum.

Arkitektinn Hilmar Þór Björnsson vakti athygli á málinu í bloggfærslu á Eyjunni fyrr í vikunni en hann hefur áhyggjur af stefnu borgaryfirvalda hvað varðar niðurrif eldri húsa í borginni.

„Ég myndi bara vilja að þetta yrði gert upp og þarna yrðu einhverjir látnir búa,“ segir Hilmar í samtali við mbl.is, ekki síst í ljósi þess að mikil þörf sé fyrir lítil sérbýli í borginni. Honum þykir svolítið geyst farið hvað varðar niðurrif eldri húsa í borginni sem fer sífellt fækkandi. „Þetta er bara svo lítið að við verðum að fara varlega,“ segir Hilmar.

Hann segir dæmigert að í málum sem þessum, þegar miklar heimildir eru veittar eða væntingar eru um heimildir til aukinna bygginga, hafi eigendur tilhneigingu til að slugsa við viðhald eldri húsa. „Þekktasta dæmið er Mýrin í París, hún var öll að drabbast niður vegna óvissu í skipulagsmálum. Svo ákváðu borgaryfirvöld að leyfa hverfinu að standa og þá tóku eigendur sig til við að lagfæra hús sín og nú er þetta vinsælasta hverfi Parísarborgar,“ útskýrir Hilmar.

Frestur rann út 17. ágúst

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og í borgarráði Reykjavíkur í júní var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skuggahverfis vegna lóðanna nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg. Í breytingunni felst meðal annars að skilgreindir verði tveir nýir byggingarreitir á lóð ásamt byggingarreit fyrir smáhýsi en einnig er gert er ráð fyrir 6 íbúðum á lóð. Þá verði byggingar á lóð nr. 1 við Veghúsastíg fjarlægðar. Frestur til að senda inn ábendingar og athugasemdir við tillöguna rann út þann 17. ágúst. 

Húsið er friðað með lögum og er á skrá Minjastofnunar Íslands en fyrir liggur umsögn frá Minjastofnun þess efnis húsið sé það illa farið að heimilt sé að rífa það niður.

Umsögn Minjastofnunar skiptir sköpum

„Auglýst var deiliskipulag núna nýlega sem gerir ráð fyrir ákveðinni uppbyggingu á þessu horni og þar með talið mögulegu niðurrifi á þessu húsi,“ segir Björn Axelsson, skipulagsfulltrúi hjá Reykjavíkurborg, í samtali við mbl.is. „Síðan á endanlega eftir að staðfesta þetta deiliskipulag. Við eigum eftir að fara með það í gegnum kerfið og til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði og svo í borgarráði og þá þurfum við að horfa til athugasemda sem hafa borist,“ útskýrir Björn sem segir umsögn Minjastofnunar vera grundvallaratriði um hvort niðurrif hússins sé heimilt.

Málið er á dagskrá afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa á morgun þaðan sem því verður að öllum líkindum vísað til verkefnisstjóra á skipulagssviði. Þar verða athugasemdir teknar saman og málið síðan borið undir umhverfis- og skipulagsráð sem loks tekur ákvörðun um framhaldið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert