Brugðist við neyðarástandi

Þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að í gær var þessi iðnaðarmaður …
Þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að í gær var þessi iðnaðarmaður önnum kafinn við að slípa veggi í svefnherbergi. Morgunblaðið/Þórður

„Safnið á Gljúfrasteini hefur verið lokað frá því í janúar sl. og verður lokað út þetta ár,“ segir Guðný Dóra Gestsdóttir, forstöðumaður safnsins, og vísar í máli sínu til þeirra umfangsmiklu viðgerða sem nú standa yfir á húsinu. En fyrr á árinu kom í ljós rakavandamál sem nauðsynlegt var að bregðast við sem fyrst.

Upphaflega stóð til að safnið yrði lokað í janúar og febrúar vegna viðhalds en eftir nánari skoðun kom í ljós raki undir gólfi og bakvið veggi. Var því þörf á mun meiri viðgerðum með lengri lokun en talið var í fyrstu.

Búið er að fjarlægja innanstokksmuni úr stofunni á Gljúfrasteini og …
Búið er að fjarlægja innanstokksmuni úr stofunni á Gljúfrasteini og hafa viðgerðir m.a. verið gerðar á veggjum, en í ljós kom rakavandamál. Morgunblaðið/Þórður

Búið er að koma safnkosti í öruggt skjól

„Það skapaðist í raun hálfgert neyðarástand sem við þurftum að bregðast við,“ segir Guðný Dóra og bætir við að iðnaðarmenn séu búnir að taka í gegn neðri hæð hússins og að verið sé að vinna í efri hæðinni. Þá verður einnig ráðist í endurbætur á þaki hússins, að sögn hennar.

„Vegna þessa höfum við þurft að flytja allan safnkost Gljúfrasteins út og í þar til gerðar geymslur. Þetta er mjög mikið verk,“ segir Guðný Dóra.

Gljúfrasteinn í Mosfellsdal var reistur árið 1945 eftir teikningu Ágústs Pálssonar arkitekts. Þar var í rúmlega hálfa öld heimili hjónanna Halldórs Kiljans Laxness nóbelsskálds og Auðar Sveinsdóttur Laxness. Íslenska ríkið festi kaup á íbúðarhúsinu árið 2002 og tveimur árum síðar var það opnað almenningi.

Inni í stofu mátti t.a.m. eitt sinn sjá veglegan flygil …
Inni í stofu mátti t.a.m. eitt sinn sjá veglegan flygil úti í horni og glerverk í endaglugganum, en það er eftir þýskan listamann. Myndin er tekin 2002. Morgunblaðið/Einar Falur

Steypan í anda fyrri tíma

„Á þeim tíma sem húsið var byggt var mjög erfitt að fá gott byggingarefni og er steypan í anda þess tíma. Síðar var húsið klætt með texplötum og þær geta auðveldlega sogað í sig raka,“ segir Guðný Dóra og bendir á að eftir að raki kemst í áðurnefndar plötur á hann mjög auðvelt með að dreifa úr sér enn frekar.

„Við þurftum því að bregðast við þessu vandamáli enda er húsið sjálft safngripur og allt sem í því er,“ segir hún, en Gljúfrasteinn var friðaður árið 2012 og skilgreindur sem safn samkvæmt safnalögum sem tóku gildi árið 2013. „Okkur ber því lögum samkvæmt að passa upp á varðveislu gripa og að allt sé í lagi.“

Búið er að koma fyrir alls kyns vinnutækjum og hlutum …
Búið er að koma fyrir alls kyns vinnutækjum og hlutum við íbúðarhúsið og verður m.a. ráðist í endurbætur á þaki. Morgunblaðið/Þórður

Ríkiseignir, sem m.a. hafa umsjón með fasteignum í eigu ríkisins og viðhaldi þeirra, halda utan um þær viðgerðir sem nú eiga sér stað á safninu. Samkvæmt upplýsingum þaðan er ekki með vissu vitað hvað viðgerðirnar munu á endanum kosta.

Aðspurð segist Guðný Dóra stefna að því að geta opnað safnið almenningi á ný í janúar á næsta ári. „En líkt og gefur að skilja mun það líka taka sinn tíma að raða öllu á sinn stað aftur. Við miðum þó við þennan tímaramma,“ segir Guðný Dóra.

Á meðan safnið er lokað vinna starfsmenn þess að margvíslegum verkefnum á borð við skráningu safnkostar og rannsóknum. Hefur þeim verið úthlutað vinnuaðstöðu á bókasafninu í Mosfellsbæ.

Í herbergi Halldórs Laxness, sem einnig sést á fyrstu mynd …
Í herbergi Halldórs Laxness, sem einnig sést á fyrstu mynd í frétt, var m.a. mynd af bænum Melkoti, sem var fyrirmyndin að Brekkukoti. Ljósmyndin er tekin 2002. Morgunblaðið/Einar Falur
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert