„Búin að fá nóg“

Enn er þrengt að rekstri leikskóla.
Enn er þrengt að rekstri leikskóla. mbl.is/Styrmir Kári

„Fyrir rúmar 30.000 kr. á dag á ég að sjá 100 manns fyrir morgunmat, ávaxtastund, hádegisverði og síðdegishressingu. Bara fiskurinn kostar t.d. um 24.000 og þá er allt annað eftir.“

Þetta skrifaði Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri Nóaborgar, í færslu á Facebook-síðu sinni í gær, þar sem hún gagnrýndi sífellt þrengri rekstrarstöðu leikskóla borgarinnar. Segist hún ekki geta boðið sjálfri sér, starfsfólki sínu eða börnunum í leikskólanum upp á annan álagsvetur. „Það þarf að gera eitthvað róttækt í skólamálunum og það strax, áður en það verður of seint.“

Í samtali við mbl.is segist Anna hafa fengið gríðarleg viðbrögð við pistlinum. „Þetta er ekki hægt lengur og í gær var ég bara búin að fá nóg,“ segir Anna og bætir við að henni hefði þótt eðlilegt í árferði eins og nú að leikskólagjöldin yrðu hækkuð.

Undarlegt hljóð í þvottavélinni kallar fram kvíðakast

Í færslunni segir hún frá því að hún hafi verið að koma af fundi með stjórnendum í leikskólum, grunnskólum og frístundum þar sem kynntar hafi verið endanlegar rekstrarniðurstöður síðasta árs. „Það er skemmst frá því að segja að mjög þungt hljóð var í hópnum.“

„Enginn er góður í öllu en allir eru góðir í einhverju segir einhvers staðar. Ég er góð í að reka leikskóla en til þess þarf ég raunhæft rekstrarfé. Um þessar mundir eru 15 ár síðan ég varð leikskólastjóri og ég hef alltaf rekið leikskólann minn vel og er það m.a. vegna þess að ég hef haft við hlið mér frábæran og þéttan hóp starfsmanna sem hafa lagt á sig mikla og óeigingjarna vinnu í gegnum árin til að láta allt ganga upp,“ skrifar Anna og heldur áfram:

„Það hefur aldrei verið góðæri í leikskólanum og alltaf hefur þurft að forgangsraða og horfa í hverja einustu krónu. Bara það að endurnýja dýnur fyrir börnin getur sett fjármálin í uppnám, undarlegt hljóð í þvottavélinni getur kallað fram kvíðakast og maður fær samviskubit við það að senda starfsfólkið í Góða hirðinn til að kaupa leikefni.“

Skrifar erfitt tímabil á meirihlutann í borginni

Anna segist undantekningalaust hafa hlakkað til að fara í vinnuna á hverjum einasta degi og talið sig vera heppna að fá að vinna við það sem henni finnist skemmtilegast í heimi. Síðasti vetur og það sem af er þessu ári hafi hins vegar verið erfiðasta tímabil sem hún hefur átt í sínu starfi, og skrifar hún það nánast að öllu leyti á þann meirihluta sem nú stjórnar borginni.

„Það rekstrarumhverfi sem okkur er boðið upp á er komið svo langt inn í merg að ekki verður setið þegjandi undir því lengur. Það er svo vitlaust gefið í þessum málaflokki, það eru óraunhæfar niðurskurðarkröfur sem ekki verður mætt nema með því að fækka starfsfólki því það er eini liðurinn sem telur eitthvað (og það er ekki að fara að gerast). Það er deginum ljósara að þetta ástand gengur ekki upp og verður borgin að horfast í augu við það að þjónustan við börnin mun skerðast og starfsfólk mun hverfa til annarra starfa.“

„Það þarf að gera eitthvað róttækt í skólamálum og það strax“

Þá hafi veikindi starfsmanna aukist á þessu ári og megi eflaust rekja það að minnsta kosti að hluta til til aukins álags. „Skóli án aðgreiningar er stefnan og er ég hlynnt henni en hún kostar pening og harkalegur niðurskurður í sérkennslu bitnar illa á þeim sem síst mega við því.“

„Ég studdi þennan meirihluta til valda og hafði mikla trú á honum en það traust fer þverrandi með hverjum deginum sem líður. Ég veit að mörgum stjórnendum líður eins og mér og eru komnir með nóg. Það þarf að gera eitthvað róttækt í skólamálunum og það strax, áður en það verður of seint.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert