Ekki æskilegt að hafa afskipti af nefndinni

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segist lítið geta gert til að hafa áhrif á gang mála vegna þeirrar stöðu sem upp er kominn á Bakka. Beðið er eftir niðurstöðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi tvo úrskurði í síðustu viku sem stöðva framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 á Bakka.

Úrsk­urðirn­ir eru til bráðabirgða á meðan nefnd­in fjall­ar um kær­ur Land­vernd­ar vegna út­gáfu fram­kvæmda­leyf­a við lagningu línanna. 

Frétt mbl.is: Niðurstaða líklega fyrir áramót

„Við höfum í auknum mæli verið að lengja arminn frá ráðherra og í úrskurðarnefndir,“ segir Sigrún í samtali við mbl.is. Hún telur óráðlegt að sem ráðherra hafi hún afskipti af störfum nefndarinnar enda sé markmiðið að ráðherra hafi sem minnst áhrif á störf hennar. Hún segir málið ekki hafa komið inn á sitt borð enda starfi úrskurðarnefndin sem sjálfstæð eining frá ráðuneytinu.

„Hins vegar höfum við verið að styrkja umhverfisnefndina og ég hef beðið um auka fjárveitingu til þess,“ segir Sigrún. Það eina sem ráðherra geti gert í svona málum sé að sjá til þess að skapa starfsumhverfi sem gengur hratt fyrir sig. „Það eina sem ég get gert er að styrkja störf nefndarinnar þannig að þau fái aukinn starfskraft og fjármagn,“ segir Sigrún sem að öðru leyti mun ekki beita sér í málinu. „Við getum ekki beðið langt fram eftir hausti.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði í samtali við mbl.is í gær að þar sem nefndin heyrði undir annað ráðuneyti gæti hún ekki beitt sér í málinu. Hún lítur málið alvarlegum augum en vonar að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst.

Frétt mbl.is: Ráðherra getur ekki beitt sér í málinu

Þá sendi fyrirtækið PCC frá sér tilkynningu í gær þar sem fyrirtækið lýsir yfir áhyggjum sínum vegna málsins enda hafi fyrirtækið mikilla hagsmuna að gæta vegna deilu sem það á ekki beina aðild að.

Frétt mbl.is: PCC „fórnarlamb" í kærumáli

Spurð hvort hún telji eðlilegt að staða sem þessi geti komið upp og hvort úrbóta sé þörf í stjórnsýslunni til að koma í veg fyrir slíkt segir Sigrún að það sé vert að skoða. „Það verður eflaust skoðað sem vekur athygli fólks, hvenær framkvæmdin hófst og síðan aftur hvenær lög tóku gildi,“ segir Sigrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert