Fjársvikin nema tæpum tveimur milljónum

Fjársvik með stolnum greiðslukortaupplýsingum er umfangsmikil glæpastarfsemi.
Fjársvik með stolnum greiðslukortaupplýsingum er umfangsmikil glæpastarfsemi. Mynd úr safni

„Það er verið að bíða eftir gögnum frá erlendum bönkum til að staðfesta grun lögreglunnar. Hann verður í gæsluvarðhaldi til 5. september,“ sagði Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is um fjársvikamálið sem greint var frá fyrr í dag. 

Fyrri frétt mbl.is um málið: Grun­ur um um­fangs­mik­il fjár­svik

Í frétt mbl.is kemur fram að maður sé í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa greitt fyrir flugferðir með Icelandair og vörur um borð í flugvélunum með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Maðurinn er talinn tengjast erlendum glæpasamtökum sem hafa það að mark­miði að svíkja út dýr­an lúxusvarn­ing um borð í flug­vél­un­um og selja á göt­um úti er­lend­is.

„Við höfum haft tvö önnur sams konar mál þar sem aðilarnir hafa tengst innbyrðis. Við höfum komist að því í gegnum síma og þess háttar. Það rennir stoðum undir það að hann sé ekki einn á ferð, að hann sé í samvinnu við einhvern annan.“

Upphæðirnar sem um ræðir nema tæplega tveimur milljónum íslenskra króna yfir sjö mánaða tímabil og fórnarlömbin eru 11 talsins frá 11 mismunandi löndum. 

Maðurinn, sem er af erlendu bergi brotinn, hef­ur geng­ist við brot­um sín­um að hluta til og mun líklega hefja afplánun að loknu gæsluvarðhaldi miðað við fordæmi frá sambærilegum málum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert