Fundu kjallara undir bílastæði

Kjallarinn fannst undir bílastæði í Hafnarfirði.
Kjallarinn fannst undir bílastæði í Hafnarfirði. Fjarðarfréttir/Guðni

Þegar unnið var að því að grafa fyrir drenlögnum við gamalt hús sem hýsir tónlistardeild Bókasafns Hafnarfjarðar í gær kom í ljós kjallari sem fyllt hafði verið upp í að hluta. Talið er að kjallarinn hafi verið í eigu Einars Einarssonar klæðskera, en þar fundust hillur, leifar af taui, herðatré og saumavélar. Frá þessu er greint á vef Fjarðarfrétta.

Í frétt miðilsins er rakin saga Einars, sem gekk undir nafninu Einar skreðari og var fæddur 13. desember 1894. Rak hann klæðskeraverkstæði og verslun við Strandgötu og bjó ásamt eiginkonu sinni á efri hæðinni. Hjónin opnuðu húsið síðar til samkomuhalds og voru trúarsamkomur tíðar í húsinu.

Árið 1987 var húsið hins vegar rifið eftir að hafa staðið autt í nokkurn tíma. Húsið var illa farið, en nokkrar deilur komu upp innan gamla safnaðarins sem Einar hafði ánafnað eigum sínum til og var ekki einhugur um hver væri í forsvari fyrir söfnuðinn.

Þegar unnið var að drenlögnunum í gær kom í ljós steypt plata þegar sagað var í gegnum malbikið við bílastæði á svæðinu. Þegar hún var rofin kom kjallarinn í ljós. Við nánari skoðun kom í ljós að hann var ekki stór og hafði verið gengið inn í hann frá planinu sunnanverðu.

Á vef Fjarðarfrétta kemur fram að Svanlaugur Sveinsson hjá Hafnarfjarðarbæ hafi stjórnað aðgerðunum en hann hafi ekki vitað af kjallaranum.

mbl.is fékk leyfi til að birta mynd af vettvangi í gær, en fleiri myndir má finna á vef Fjarðarfrétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert