Hannes og Hallgerður efst

Verðlaunahafar á skákmóti Hróksins á Stofunni ásamt Kristjönu Guðmundsdóttur Motzfeldt.
Verðlaunahafar á skákmóti Hróksins á Stofunni ásamt Kristjönu Guðmundsdóttur Motzfeldt.

Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson varð efstur á mjög sterku skákmóti sem Hrókurinn og Stofan Café efndu til á fimmtudagskvöldið, í tilefni af Ólympíuskákmótinu sem hefst í Bakú í Aserbaídsjan í næstu viku. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir sigraði í kvennaflokki. Keppendur voru 32 og var mótið æsispennandi og bráðskemmtilegt frá upphafi til enda, samkvæmt upplýsingum frá Hróknum.

„Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður lék fyrsta leikinn á mótinu fyrir Hannes Hlífar gegn Jon Olav Fivelstad.  Hannes hefur orðið Íslandsmeistari tólf sinnum, oftar en nokkur annar, og hann tefldi af miklu öryggi á mótinu. Goðsögnin Jóhann Hjartarson veitti honum harða keppni framan af, sem og stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson, en Hannes gaf engan höggstað á sér.

Helgi Áss varð í 2. sæti í karlaflokki og hinn ungi og bráðefnilegi Dagur Ragnarsson náði bronsinu.

Keppni var mjög tvísýn í kvennaflokki, enda allar landsliðskonurnar fimm meðal keppenda, sem og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, fv. Íslandsmeistari. Leikar fóru svo að Hallgerður Helga hreppti gullið, Lenka Ptacnikova silfrið og Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir bronsið. Þær skipa íslenska kvennaliðið á Ólympíumótinu í Bakú, ásamt Hrund Hauksdóttur og Veróniku Steinunni Magnúsdóttur.

Í mótslok afhenti Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt, heiðursforseti Hróksins á Grænlandi, verðlaun frá Stofunni og óskaði íslenska landsliðsfólkinu gæfu og gengis á Ólympíumótinu í Bakú,“ segir í tilkynningu.

Ungar og efnilegar skákkonur, Verónika Steinunn og Hrund eru á …
Ungar og efnilegar skákkonur, Verónika Steinunn og Hrund eru á leið á Ólympíuskákmótið en Dagur Ragnarsson hlaut bronsið á mótinu.
Hörður Jónasson og Hjálmar Hrafn Sigurvaldason.
Hörður Jónasson og Hjálmar Hrafn Sigurvaldason.
Bragi Þorfinnsson og Jóhann Hjartarson.
Bragi Þorfinnsson og Jóhann Hjartarson.
Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður lék fyrsta leikinn á mótinu.
Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður lék fyrsta leikinn á mótinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert