Lífið snýst um fimleika

Irina Sazonova.
Irina Sazonova. mbl.is/Ásdís

Irina Sazonova er nýkomin heim frá Brasilíu þar sem hún var fyrsta konan til að keppa í fimleikum á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd. Hún segir ferðina til Ríó hafa verið draumi líkasta. „Ég á ennþá erfitt með að trúa því að ég hafi tekið þátt í leikunum,“ segir Irina. Hún segist vera sátt og ánægð með sinn árangur.

Byrjaði að æfa fimleika fjögurra ára gömul

 Irina er að sjálfsögðu inni í fimleikasal Ármanns þegar blaðamann ber að garði. Þar þjálfar hún ungar stúlkur og æfir sjálf marga klukkutíma á dag, enda snýst allt líf hennar um fimleika. Hún sprettur upp, létt á fæti að sjálfsögðu, enda ólympíukeppandi í fimleikum hér á ferð. Þessi 25 ára gamla kona er alin upp í rússnesku borginni Vologda sem er lítil borg tæplega 500 kílómetra norður af Moskvu. Þar bjó hún til fjórtán ára aldurs en þá lést móðir hennar og Irina flutti til Sankti Pétursborgar þar sem hún var í heimavistarskóla fyrir ungt íþróttafólk. En Irina var þá enginn byrjandi því hún hóf að æfa fimleika fjögurra ára gömul. Hún á ekki langt að sækja áhugann en móðir hennar hafði æft fimleika alla sína ævi og keppti um tíma með landsliði Sovétríkjanna. Irina kom til Íslands árið 2013 og fékk ríkisborgarrétt í fyrra.

Ákvað ellefu ára að komast á Ólympíuleika

Irina man ekki eftir sér öðruvísi en að æfa fimleika og hefur lagt hart að sér alla ævi. „Fimleikar eru líf mitt,“ segir hún. Blaðamaður spyr hvort hún hafi strax verið talin efnileg. „Það voru ekki allir sem trúðu því að það yrði eitthvað úr mér,“ segir Irina sem æfði sem barn þrjá tíma á dag, sex daga vikunnar. „Það var erfitt stundum, þessi íþrótt getur verið erfið,“ segir Irina en segist þó njóta þess líka. Irina var aðeins ellefu ára þegar hún setti sér það markmið að komast á Ólympíuleika. Það hafði hún skrifað í dagbók en hafði sjálf steingleymt því þar til þjálfari hennar minnti hana á það. „Ég skrifaði alltaf markmiðin mín í þessa dagbók, hvert ég vildi ná og hvað ég gerði á hverri æfingu. Og í þessa dagbók skrifaði ég að ég ætlaði að komast á Ólympíuleika,“ segir Irina og viðurkennir að hún sé mjög metnaðarfull. Draumurinn rættist svo í sumar en Irina heldur ótrauð áfram og stefnir á næstu leika eftir fjögur ár sem verða í Tókýó árið 2020.

Ítarlegt viðtal við Irinu er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert