Safna fyrir heilalínuritstæki á Barnaspítalanum

Nökkvi Fjalar, Hafsteinn, Gyða og Jóhann Fjalar fagna útkomu bókarinnar …
Nökkvi Fjalar, Hafsteinn, Gyða og Jóhann Fjalar fagna útkomu bókarinnar innan um leiktæki á afmörkuðu svæði barnanna. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Bræðurnir Jóhann Fjalar Skaptason flugfjarskiptamaður og Nökkvi Fjalar Orrason, eigandi Áttunnar, hafa skrifað barnabókina Vinir Elísu Margrétar til minningar um Elísu Margréti Hafsteinsdóttur, sem fæddist með alvarlegan og sjaldgæfan heilasjúkdóm og var mikið fötluð, en hún lést í vor, aðeins þriggja ára að aldri.

Ingunn Kristjánsdóttir, móðursystir Elísu Margrétar, myndskreytir bókina og Sögur útgáfa gefur hana út. Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til Barnaspítala Hringsins vegna þess hve vel barnaspítalinn annaðist Elísu Margréti. „Draumurinn er að safna fyrir heilalínuritstæki til afnota á spítalanum en nú þarf að flytja börn yfir í Fossvog til þess að taka eitt heilalínurit,“ segir Nökkvi, en í dag verður undirritaður samningur við Hagkaup, sem kaupir fyrstu prentun, 2.000 eintök, og setur í sölu 6. október.

Tónleikarnir gáfu tóninn

Bræðurnir stóðu að styrktartónleikum í Austurbæ vegna stöðu Elísu Margrétar og foreldra hennar, Gyðu Kristjánsdóttur og Hafsteins Vilhelmssonar, fyrir tæplega ári og var foreldrunum afhentur sérútbúinn bíll til eignar í lok tónleikanna. „Þetta er það verkefni sem hefur snert mig mest og gefið mér meira en nokkurt annað,“ segir Nökkvi Fjalar. Hann vildi aðstoða fjölskylduna til að hún gæti eignast bílinn og gaf vinnu sína eins og allir aðrir sem komu að tónleikunum. „Ánægjan og hamingjan lifa enn í hjartanu og eru mun dýrmætari en einhverjir peningar,“ segir hann. Bætir við að þeir hafi ekki viljað láta þar staðar numið og eftir að hafa fengið hringingu frá Róberti Úlfarssyni, vini sínum í Bandaríkjunum, sem hafi stungið upp á að þeir ættu að skrifa barnabók, hafi hann tekið hann á orðinu. „Mér fannst tilvalið að skrifa barnabók og gera Elísu Margréti að aðalpersónunni.“

Sterkur boðskapur

Nökkvi Fjalar segir að skrifin hafi verið gerð í samráði við og með samþykki foreldra Elísu Margrétar og fljótlega hafi þau ákveðið að best væri að fá Ingunni til þess að myndskreyta bókina. „Hún þekkti litlu frænku sína vel og teikningarnar lýsa barninu betur en hægt hefði verið að ímynda sér,“ segir hann.

Til stóð að gefa bókina út fyrir jólin í fyrra en tíminn var naumur og því var beðið með útgáfuna. Síðan veiktist Elísa Margrét alvarlega og þá var um annað að hugsa en bókaútgáfu. Nökkvi Fjalar segir að í raun hafi framtíð bókarinnar verið óljós þar til fyrir skömmu. Þá hafi hann verið með Gyðu og Hafsteini og þau hafi þá sagt að þau vildu að bókin kæmi út til þess að halda minningunni um dóttur sína enn frekar á lífi. „Bókin var í raun tilbúin og því ekkert að vanbúnaði að gefa hana út,“ segir Nökkvi Fjalar. Bætir við að síðan hafi Gyða og Hafsteinn eignast dóttur, sem heitir Líf.

Bókin er ætluð fyrir um sex ára gömul börn. Hún fjallar í stuttu máli um einelti, innflytjendafordóma, samkynhneigð og þöggun. „Boðskapurinn er sterkur og Elísa Margrét skín í gegnum texta og myndir,“ segir Nökkvi Fjalar. „Tónleikarnir voru 6. október í fyrra og þess vegna ákváðum við að bókin kæmi út sama dag í ár.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert