Skaðabætur oftast ákveðnar af dómstólum

Konan féll niður um op á þessum stiga.
Konan féll niður um op á þessum stiga. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Mjög algengt er að mál fari dómstólaleiðina þegar fólk hefur lent í vinnuslysum á borð við það sem varð á Selfossi á mánudaginn. Þetta segir Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, spurður út í mögulegar skaðabætur vegna slyssins. 

Þrítug kona slasaðist þá alvarlega eftir að hafa fallið 6,3 metra niður op á brunastiga.

„Það er til í dæminu að menn sættist á eitthvað en það er mjög algengt að það fari dómstólaleiðina. Þá eru skýrslur frá okkur og öðrum lagðar til grundvallar,“ segir Eyjólfur.

Slysið varð á þriðju hæð þar sem Sunnlenska fréttablaðið er með aðstöðu. Eldvarnaeftirlit Brunavarna Árnessýslu hafði oftar en einu sinni gert athugasemdir við brunastigann við húsráðendur en hæðin er í eigu Sjálfstæðisflokksins á Selfossi.

Frétt mbl.is: Áður gert athugasemdir við brunastiga

Eyjólfur segir Vinnueftirlitið ekki hafa farið í reglubundið eftirlit í húsnæðið, enda sé það ekki í áhættuflokki sem kalli á þannig eftirlit. „Þetta er skrifstofustarfsemi. Við förum í svoleiðis eftirlit þegar ábendingar koma eða eitthvað kemur upp á en við höfum takmarkaðan mannafla og reynum að beina honum þangað sem við teljum að áhætta sé mest á slysum,“ segir hann.

„En það kemur okkur mjög á óvart að þetta skyldi vera svona þarna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert