Ginnungagap milli höfuðsins og hjartans

Kári Stefánsson skýtur fast á fjármálaráðherra í aðsendri grein í …
Kári Stefánsson skýtur fast á fjármálaráðherra í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það er ginnungagap milli þess sem höfuðið segir fjármálaráðherra að sé rétt og þess sem hjartað knýr hann til að gera. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar gagnrýnir hann m.a. fimm ára áætlun ríkisstjórnarinnar um ríkisfjármál.

Í greininni segist Kári hafa átt nokkur samtöl við Bjarna Benediktsson þar sem ráðherra tók undir þá skoðun að mikilvægt væri að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga og auka fjárframlög til heilbrigðiskerfisins til muna.

Kári segir fimm ára áætlunina hins vegar ekki til marks um vilja fjármálaráðherra og lýsir því hvernig það hafi bögglast fyrir sér að finna skýringu á því.

„Þegar ég var kominn í þrot í leit minni að skýringu mundi ég allt í einu eftir sögunni af sporðdrekanum og froskinum: Það var einu sinni sporðdreki sem kom að á og vildi komast  yfir en sporðdrekar kunna hvorki að synda né fljúga. Hann vék sér því að froski, sem sat á árbakkanum, og bað hann að ferja sig yfir. Froskurinn sagðist myndu gera það ef hann lofaði að stinga hann ekki. Sporðdrekinn féllst á það en engu að síður stakk hann froskinn þegar þeir voru í miðri ánni.

„Hvernig stendur á því að þú gerir þetta?“ spurði froskurinn. „Nú drukknum við báðir.“

„Af því að það er í samræmi við eðli mitt,“ svaraði sporðdrekinn.“,“ skrifar Kári.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grein Kára í heild:

Ekki að marka eitt einasta orð

Oft á tíðum er erfitt að átta sig á því hvert af kornunum það er sem endanlega fyllir mælinn, þau eru þarna, taka pláss hvert fyrir sig og leggja þannig öll að mörkum til þess að meira komist ekki fyrir. Ég er hins vegar ekki í nokkrum vafa um hvað það var sem gerði það að verkum að nú finnst mér mælirinn fullur og nóg komið af Bjarna Benediktssyni og legg hér með til að honum verði fundið hlutverk utan stjórnmála þar sem orðheldni skiptir ekki máli eða litið er á skort á henni sem mannkost.

Þetta byrjaði með undirskriftasöfnun til stuðnings heilbrigðiskerfinu. Fyrstu viðbrögð Bjarna við henni voru að segja að krafan um 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála væri óraunhæf vegna þess að hún kallaði á um fjörutíu milljarða króna viðbót. Þegar ljóst varð að söfnunin gengi þokkalega og yrði líklega sú stærsta í sögu þjóðarinnar fór afstaða Bjarna, sem og annarra stjórnmálaleiðtoga til söfnunarinnar, að mildast. Bjarni fór meira að segja að setja hana í samhengi við það þegar íhaldsmenn í Bretlandi gerðu skoðanakönnun sem sýndi þeim fram á að fólkið í landinu vildi ekki að skattar yrðu lækkaðir heldur að hlúð yrði að innviðum samfélagsins. Með því að virða þann vilja fólksins unnu þeir mikla kosningasigra. Bjarni fór í viðtöl við Morgunblaðið og í Sprengisand og sagði að hann liti svo á að hlutverk ríkisins væri að hlúa að þeim sem minna mættu sín og hann myndi sjá til þess að velferðarkerfið, og þá sérstaklega heilbrigðiskerfið, hlyti stærri sneið af ríkiskökunni. Ég átti nokkur samtöl við Bjarna þar sem hann tók undir þá skoðun að mikilvægt væri að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu og auka yrði fjárframlög til heilbrigðiskerfisins til muna. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að Bjarni meinti hvert orð af því sem hann sagði við mig. Hann er skýr, hann kemur vel fyrir, er með góða nærveru og er skemmtilegur og hann vill hlut lítilmagnans í íslensku samfélagi meiri en hann er í dag. Hausinn er í lagi en hjartað í honum er hins vegar illa haldið af meinsemd af þeirri gerð sem verður hvorki meðhöndluð á Landspítalanum né á einkareknu sjúkrahúsi, sem verður örugglega ekki starfrækt í Mosfellsbæ eða annars staðar á Íslandi. Það er nefnilega ginnungagap milli þess sem höfuðið segir honum að sé rétt og þess sem hjartað knýr hann til þess að gera.

Á fimmtudaginn í síðustu viku var samþykkt þingsályktunartilaga, sem Bjarni lagði fram til stuðnings við fimm ára áætlun um ríkisfjármál. Sú áætlun gengur þvert á yfirlýstan vilja hans til þess að hlúa að þeim sem minna mega sín, styrkja velferðarkerfið og þá sérstaklega að bæta heilbrigðiskerfið. Þegar Bjarni var gagnrýndur fyrir þetta svaraði hann því til að menn ættu ekki að hafa áhyggjur af áætluninni, það mætti alltaf breyta henni eftir kosningar. Þetta svar má túlka á að minnsta kosti tvo máta, annars vegar að Bjarni líti svo á að þann stuðning við velferðarkerfið, sem hann treysti sér ekki til að leggja til undir þrýstingi fyrir kosningar, muni hann leggja til eftir kosningar, þegar þrýstingurinn sé ekki lengur til staðar. Mér finnst ekki líklegt að hann trúi þessu sjálfur. Hin túlkunin er mun líklegri í ljósi þess að Bjarni treysti sér ekki til að standa við orð sín um stuðning við velferðarkerfið og er sú að hann reikni með því að eftir kosningar muni aðrir en hann fara með ríkisfjármálin og hljóti að breyta fimm ára áætluninni í samræmi við sín hjartans mál.

Það er búið að bögglast töluvert fyrir brjóstinu á mér að finna skýringu á því hvers vegna fimm ára áætlun ríkisfjármála hunsar algjörlega þá skoðun Bjarna að við eigum að hlúa betur að velferðarkerfinu og endurreisa heilbrigðiskerfið. Þetta eru skoðanir sem ég veit að hann aðhyllist af heilum hug. Það sem meira er, hann gerir sér fyllilega grein fyrir því að þokkaleg útkoma fyrir flokk hans í kosningunum í haust er háð því að fólkið í landinu trúi því að ríkisstjórn með þátttöku hans yki stuðning við velferðarkerfið. Þegar ég var kominn í þrot í leit minni að skýringu mundi ég allt í einu eftir sögunni af sporðdrekanum og froskinum: Það var einu sinni sporðdreki sem kom að á og vildi komast yfir en sporðdrekar kunna hvorki að synda né fljúga. Hann vék sér því að froski, sem sat á árbakkanum, og bað hann að ferja sig yfir. Froskurinn sagðist myndu gera það ef hann lofaði að stinga hann ekki. Sporðdrekinn féllst á það en engu að síður stakk hann froskinn þegar þeir voru í miðri ánni.

„Hvernig stendur á því að þú gerir þetta?“ spurði froskurinn. „Nú drukknum við báðir.“

„Af því að það er í samræmi við eðli mitt,“ svaraði sporðdrekinn.

Það er bara þannig að það er ekki í samræmi við eðli Bjarna sem formanns Sjálfstæðisflokksins að hlúa að velferðarkerfinu, án tillits til skoðana hans og yfirlýsts vilja. Silfur er þungur málmur og þungir málmar eru hættulegir heilanum og heilinn er það líffæri þar sem eðli manna verður til. Þegar menn tilheyra fjölskyldu þar sem börn hafa fæðst með silfurskeið í munni í tvær kynslóðir er hætta á því að þeim sé eðlilegra að vera kóngulóin sem situr í miðjum vefnum sem tengir saman viðskipti og stjórnmál en að hlúa að almúganum í landinu. Eðlið er nefnilega oftast viljanum yfirsterkara. Þess vegna hljótum við að koma Bjarna út af þingi við kosningarnar í haust og með því bjarga honum frá þeim sársauka sem hlýst af árekstri vilja og eðlis en fyrst og fremst kæmum við þannig í veg fyrir að stjórn landsins lendi aftur í höndunum á mönnum sem er ekkert að marka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert