Skipt um hlutverk á Alþingi

Fjör á Alþingi.
Fjör á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar og forseti Alþingis kunngjört að yfirstandandi Alþingi, 145. löggjafarþingið, verði framlengt um óákveðinn tíma en til stóð að því lyki 2. september nk. Kosningar til Alþingis eru áformaðar 29. október.

Af ummælum nokkurra þingmanna stjórnarandstöðunnar má ætla að þessi ákvörðun hafi komið þeim á óvart. Reyndar hafði Morgunblaðið birt frétt um þessar fyrirætlanir 10. ágúst sl. og nokkrir miðlar tóku þá frétt upp. Þá upplýstu Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson á Alþingi í fyrradag að þeir hefðu í viðræðum við forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna í sumar kynnt áformin. „Á fundi með formönnum flokkanna sem ég og fjármálaráðherra áttum í aðdraganda þingsins kynntum við þær hugmyndir að fresta samkomudegi þingsins, halda áfram þingstörfum fram í september, hugsanlega út september og lengur ef þurfa þykir með þeirri niðurstöðu að kjósa í lok október,“ sagði forsætisráðherra.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, brást illa við þessum tíðindum á Alþingi í fyrradag og sagði m.a: „Hér hefur verið unnið vel en á sama tíma gerist það núna í óundirbúnum fyrirspurnatíma að hæstv. forsætisráðherra, sem er forustumaður framkvæmdavaldsins, lætur eins og starfsáætlun Alþingis sé einskis virði, sé ekki pappírsins virði. Hann kemur hingað inn og tilkynnir Alþingi það og forseta þar á meðal að til standi að funda hér einhverjum vikum saman eftir að starfsáætlun Alþingis er lokið. Þetta er ótækt. Þetta er hegðun framkvæmdavaldsins sem er á kostnað virðingar Alþingis. Ég legg áherslu á að við gætum mjög vel að þessu þegar við hittumst hér á eftir að þetta er ótækt. Alþingi þarf að gæta að virðingu sinni og gera framkvæmdavaldinu mjög ljóst að starfsáætlun Alþingis er pappír sem skiptir máli.“ Og Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði við sama tækifæri að forsætisráðherra væri „að þvæla málum fram yfir áætluð þinglok til þess að geta tafið kosningabaráttuna, til þess að koma í veg fyrir það að kosningabaráttan geti hafist.“

Þingrofið í mars 2009

En spólum nú nokkur ár aftur í tímann eða til 13. mars 2009. Þann dag las Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna forsetabréf um þingrof og að kosningar skuli fara fram 25. apríl það ár. Jóhanna sagði í ræðu sinni að það væri sjálfstæð ákvörðun hvenær fundum Alþingis yrði frestað fyrir kosningar. Síðan sagði Jóhanna: „Nær öll þau mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að fá afgreidd hafa nú verið lögð fram. Fyrir liggur að stjórnmálaflokkar hafa mismunandi sýn á hversu lengi þingið á að starfa á þessu vori og hvaða mál séu brýnust. Ég legg áherslu á að öll brýn mál þarf að afgreiða áður en þingi verður frestað. Þar er m.a. um að ræða mál sem varða stuðning við heimilin í landinu og atvinnulífið og endurreisn fjármálakerfisins, auk frumvarps til laga um breytingar á kosningalögum og stjórnarskipunarlögum sem flutt eru af fulltrúum fjögurra flokka. Listi yfir þau mál sem ólokið er hefur verið kynntur formönnum stjórnmálaflokka og jafnframt var þeim greint frá því að ef til vill gætu örfá mál bæst á þann lista. Ég vil undirstrika að þessi mál eru öll afar mikilvæg og þeim þarf að ljúka. Því er mikilvægt að þing starfi þangað til þau eru orðin að lögum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert