„Virkjanasprengja á Íslandi“

Í fjöruborði Kleifarvatns.
Í fjöruborði Kleifarvatns. mbl.is/Rax

Stjórn Íslandshreyfingarinnar – lifandi lands fagnar því að verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar hafi ekki látið undan þrýstingi Orkustofnunar, Landsvirkjunar og fleiri um að taka þá virkjanakosti úr verndarflokki sem búið var að flokka þannig.

Stjórnin gerir hins vegar alvarlegar athugasemdir varðandi virkjanir sem settar eru í orkunýtingarflokk.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandshreyfingunni en undir hana rita Ómar Þ. Ragnarsson formaður og Margrét K. Sverrisdóttir varaformaður.

„Með Austurengjavirkjun, sem ætti að heita Krýsuvíkurvirkjun, verður stærsta ósnortna hverasvæði Reykjanesskagans og ásýnd Kleifarvatns raskað stórlega vegna virkjunar, sem felur í sér rányrkju, af því að aðeins er gert ráð fyrir 50 ára endingartíma orkunnar.

Skuldbindingu Ríó-sáttmálans um að náttúran njóti vafans er ekki fylgt varðandi einn stærsta villta laxastofn í Norður-Atlantshafi í Þjórsá. Breitt er yfir eðli tveggja af þremur virkjunum í Þjórsá með því að kenna þær ekki við vatnsfallið, heldur kalla Búðafossvirkjun Holtavirkjun og efstu virkjunina Hvammsvirkjun.

Sama á við um Skrokkölduvirkjun, sem er í raun Köldukvíslarvirkjun og felur í sér að virkjanasvæði Tungnaár er lengt um 65 kílómetra inn í miðhálendið.

Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal felur í sér fyrirhugaða sókn inn á Hraunin og vatnasvið Hvalár á Ófeigsfjarðarheiði, en virkjun á þessu svæði tjarna og smárra vatna mun þurrka upp fjölda fallegra fossa, og raska stórlega þessu ósnortna víðerni. 

Minna má á, að árið 2002 lýsti forsætisráðherra Norðmanna því yfir að tími nýrra stórra virkjana væri liðinn í Noregi og þar með einnig á Norðurlöndunum, – nema á Íslandi.

Íslendingar hafa farið þveröfuga leið. 

Á þeim fjórtán árum, sem síðan eru liðin, hefur orðið virkjanasprengja á Íslandi sem nú á að setja á fulla ferð með ígildi tveggja Kárahnjúkavirkjana,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert