„Fimleikar eru líf mitt“

Irina keppir í fjórum greinum; á slá, tvíslá, gólfi og …
Irina keppir í fjórum greinum; á slá, tvíslá, gólfi og í stökki. Hún æfir í 24 klukkutíma á viku og þjálfar einnig ungar stúlkur. Með þrotlausri vinnu tókst henni að komast á Ólympíuleikana í Ríó. mbl.is/Ásdís

Irina Sazonova er fyrsta konan til að keppa í fimleikum á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd. Hún er frá Rússlandi en flutti til Íslands árið 2013 og er nú íslenskur ríkisborgari og Íslandsmeistari í fimleikum. Irina þjálfar ungar stúlkur hjá Ármanni og æfir sjálf marga klukkutíma á dag. Lífið snýst um fimleika. Hún segir ferðina til Ríó hafa verið draumi líkasta. Irina er hvergi nærri hætt og stefnir á leikana í Tókýó 2020.

Irina er sannkölluð afrekskona og gaman að hitta hana. Hún hefur sett markið hátt allt frá blautu barnsbeini og er nú að uppskera fyrir erfiðið. Fyrir okkur venjulega fólkið er erfitt að gera sér í hugarlund hversu mikil vinna liggur að baki því að komast á Ólympíuleika því samkeppnin er gríðarleg.

Irina Sazonova er fyrsta konan til að keppa í fimleikum á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd. Hún er frá Rússlandi en flutti til Íslands árið 2013 og er nú íslenskur ríkisborgari og Íslandsmeistari í fimleikum. Irina þjálfar ungar stúlkur hjá Ármanni og æfir sjálf marga klukkutíma á dag. Lífið snýst um fimleika. Hún segir ferðina til Ríó hafa verið draumi líkasta. Irina er hvergi nærri hætt og stefnir á leikana í Tókýó 2020. 

Irina er að sjálfsögðu inni í fimleikasal Ármanns þegar blaðamann ber að garði. Hún er ljóshærð og lágvaxin, sterklega byggð og kvik í hreyfingum. Hún sprettur upp, létt á fæti að sjálfsögðu, enda ólympíukeppandi í fimleikum hér á ferð. Við setjumst niður og tölum saman með aðstoð túlks, en Irina er smátt og smátt að ná tökum á íslenskunni.

Byrjaði fjögurra ára

„Ég kom fyrst með þjálfara sem starfaði hér. Þessi þjálfari fór eftir ár en ég varð eftir af því mér líkaði svo vel hér,“ segir Irina þegar blaðamaður forvitnast um hvað ung kona frá Rússlandi sé að gera á Íslandi. Hún er fædd árið 1991 og er alin upp í rússnesku borginni Vologda sem er lítil borg tæplega 500 kílómetra norður af Moskvu. Þar bjó hún til fjórtán ára aldurs en þá lést móðir hennar og Irina flutti til Sankti Pétursborgar þar sem hún var í heimavistarskóla fyrir ungt íþróttafólk. En Irina var þá enginn byrjandi því hún hóf að æfa fimleika fjögurra ára gömul. Hún á ekki langt að sækja áhugann en móðir hennar hafði æft fimleika alla sína ævi og keppti um tíma með landsliði Sovétríkjanna.

Ákvað ung að ná langt

Irina man ekki eftir sér öðruvísi en að æfa fimleika og hefur lagt hart að sér alla ævi. „Fimleikar eru líf mitt,“ segir hún. Blaðamaður spyr hvort hún hafi strax verið talin efnileg. „Það voru ekki allir sem trúðu því að það yrði eitthvað úr mér,“ segir Irina sem æfði sem barn þrjá tíma á dag, sex daga vikunnar. „Það var erfitt stundum, þessi íþrótt getur verið erfið,“ segir Irina en segist þó njóta þess líka.

Irina var aðeins ellefu ára þegar hún setti sér það markmið að komast á Ólympíuleika. Það hafði hún skrifað í dagbók en hafði sjálf steingleymt því þar til þjálfari hennar minnti hana á það. „Ég skrifaði alltaf markmiðin mín í þessa dagbók, hvert ég vildi ná og hvað ég gerði á hverri æfingu. Og í þessa dagbók skrifaði ég að ég ætlaði að komast á Ólympíuleika,“ segir Irina og viðurkennir að hún sé mjög metnaðarfull.

Hún slær aldrei slöku við. „Ég hef ennþá mikinn áhuga og það hefur farið svo mikill tími og orka í þetta að það er ómögulegt að kasta þessu öllu frá sér,“ segir hún.

Irina þjálfar hérlendis stúlkur á aldrinum 7-9 ára. Ég spyr hvort þar leynist ólympíufarar framtíðarinnar. „Já, mögulega, en það þarf mjög mikið að leggja á sig til að það geti orðið.“

Irina Sazonova er fyrsta íslenska konan til að keppa í …
Irina Sazonova er fyrsta íslenska konan til að keppa í fimleikum á Ólympíuleikum. mbl.is/Árni Sæberg

Ótrúleg upplifun í Ríó

Sjálf hefur Irina þurft að vinna fyrir því að komast í hóp þeirra bestu. „Þetta er ekki bara erfitt líkamlega heldur líka andlega. Það er ekki sjálfgefið að ráða við þetta andlega,“ útskýrir Irina en hún keppir í fjórum greinum og er jafnvíg í þeim öllum. Greinarar eru tvíslá, slá, stökk og gólf. Hún á sér ekki uppáhaldsgrein. „Það fer eftir skapinu,“ útskýrir hún.

Irina er nýkomin heim frá Ólympíuleikunum í Ríó, Brasilíu. „Ég á ennþá erfitt með að trúa því að ég hafi tekið þátt í leikunum,“ segir Irina. Hún segist vera sátt og ánægð með sinn árangur. „Ég fór í gegnum allt prógrammið mitt og datt aldrei. Þetta var jöfn frammistaða,“ segir hún.

Irina segir andrúmsloftið á leikunum hafa verið gott. „Ég tala ekki ensku en ég þekki allt rússneska fimleikaliðið þannig að ég var í samskiptum við þær sex sem voru þaðan. Við fórum saman út að borða og í búðir,“ segir hún.

Irina kemur heim frá Ríó reynslunni ríkari og segir upplifunina hafa verið það sem standi upp úr; tilfinninguna að fá að vera með og fá að keppa á meðal þeirra bestu.

Ætlar til Tókýo 2020

Stefnan er að sjálfsögðu tekin á að komast á næstu Ólympíuleika að fjórum árum liðnum. Blaðamaður forvitnast um hvort hún ætli að leggja áherslu á eitthvað sérstakt í þeim undirbúningi. „Að lifa af,“ svarar hún og brosir. „Þetta er erfið íþrótt. Ef maður slasast er maður úr leik,“ segir hún. „Mér líkar ekki að hugsa mjög langt fram í tímann,“ segir Irina sem vill helst einbeita sér aðeins að næsta móti sem er í október. Hún segist hafa öðlast dýrmæta reynslu í Ríó og mun nýta sér það á næstu mótum.

Irina lét húðflúra á sig merki Ólympíuleikanna í Ríó árið …
Irina lét húðflúra á sig merki Ólympíuleikanna í Ríó árið 2016 til að minnast þessa stórviðburðar í lífinu. AFP

Gott að búa á Íslandi

Irina er mjög ánægð á Íslandi og segir betra að búa hér en í Rússlandi. „Rússland er auðvitað alltaf mitt heimaland en Ísland er orðið mitt heimili, ég vinn hérna og á marga vini. Ég er líka búin að eignast kærasta,“ segir Irina en hún er nýtrúlofuð. „Það eina erfiða við að vera hér er að fjölskyldan varð eftir,“ segir Irina sem á föður og systur í Rússlandi.

Allir vinir Irinu á Íslandi eru ungt fólk frá Rússlandi. Þegar hún er ekki að æfa eða þjálfa fimleika fer hún gjarnan í sund eða út í náttúruna. Vinirnir fara líka saman á kaffihús eða bíó.

Blaðamaður forvitnast um trúlofunina. „Hann heitir Roman og er Rússi. Hann vinnur í ferðabransanum,“ segir hún en brúðkaupið verður 14. september. Irina segir að bónorðið hafi verið rómantískt en ætlar að eiga þá minningu fyrir sjálfa sig.

Ólympíuhúðflúr á hálsi

Irina skartar húðflúrum, bæði aftan á hálsi og á fæti. Húðflúraðir eru á hnakkann ólympíuhringirnir og er þar letrað: Rio, 2016. „Þetta var mjög mikilvægur atburður í mínu lífi og þetta mun alltaf minna mig á það,“ segir hún en margir aðrir íþróttamenn gerðu það sama að hennar sögn.

Á fætinum er hún með blóm og munstur en vinur hennar er húðflúrari. „Þetta byrjaði með að því að ég vildi hylja ör sem ég er með á fætinum,“ segir Irina. Hún segir húðflúrið ekki tilbúið, enn eigi eftir að lita inn í sumar línurnar. „Mig langar bara að láta klára þetta og svo er ég hætt,“ segir hún um húðflúrið en bætir svo við: „Nema kannski fæ ég mér nýtt eftir Tókýó!“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert