Þreföldun íbúðafjölda í nýrri Vogabyggð

Svæðið þar sem ný Vogabyggð á að rísa. Séð yfir …
Svæðið þar sem ný Vogabyggð á að rísa. Séð yfir Súðarvog áleiðis að Skútuvogi. Dugguvogur er vinstra megin á myndinni og tanginn sem á að fá heitið Fleyvangur er hægra megin. Mynd/Reykjavík

Fjölga á íbúðum á aðalskipulagi í Vogabyggð í Reykjavík úr 400 upp í 1.300 samkvæmt nýrri auglýsingu á vef Reykjavíkurborgar. Gert er ráð fyrir breytingum á húsa- og gatnafyrirkomulagi í hverfinu, en meðal annars á að gera Dugguvog að aðalgötunni gegnum hverfið. Þá á að reisa nýtt torg á svæðinu og brú milli Vogahverfisins og yfir í Naustavog, sem mun fá heitið Fleyvangur. Á Fleyvangi á einnig að reisa nýjan skóla rétt hjá Snarfarahöfninni, en gert er ráð fyrir 300-670 grunnskólabörnum í hverfinu.

Þótt um sé að ræða rúmlega þreföldun á íbúðafjölda í hverfinu hefur hugmyndin um þessa fjölgun verið nokkuð í umræðunni og var hluti af samkomulagi sem gert var um enduruppbyggingu svæðisins við stærstu lóðahafa í byrjun þessa árs.

Fram kemur í breytingartillögum að út frá rammaskipulagsvinnu hafi orðið ljóst að mun meira byggingamagn gæti rúmast í Vogabyggð en núverandi aðalskipulag segði til um, jafnvel þótt horft væri til sömu markmiða um yfirbragð byggðarinnar, þ.e. „3-5 hæða randbyggð, heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi“.

Skipulagsvinnan skiptist í fjögur svæði. Núverandi breytingatillögur miða að endurskoðun …
Skipulagsvinnan skiptist í fjögur svæði. Núverandi breytingatillögur miða að endurskoðun aðalskipulags fyrir allt svæðið og deiliskipulags fyrir svæði 2. Mynd/Reykjavík

Vogabyggð samanstendur af fjórum svæðum sem ná frá Miklubraut í suðri að Kleppsmýrarvegi í norðri, Sæbraut í vestri og Elliðaárvogi í austri. Samhliða auglýsingu um nýtt aðalskipulag er auglýst breyting á svæði 2, en það er stærsti hluti Vogabyggðar og gert er ráð fyrir mestu byggingamagni þar. Þá er svæði 2 einnig miðsvæði Vogabyggðar og þar sem áformað er að ráðast í mestar breytingar á gatnakerfi.

Úr 400 í 1.100 og síðan í 1.300 í búðir

Upphaflega var hugmyndasamkeppni fyrir Vogabyggð og síðar var rammaskipulag unnið í kringum vinningstillöguna. Á síðasta ári kynnti borgin áform um endurbyggingu hverfisins, en þá var áætlað að um 1.100 íbúðir yrðu á svæðinu og 56.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði.

Í janúar á þessu ári var nánari útfærsla kynnt  og kom þá fram að horft væri til þess að 1.100 til 1.300 íbúðir væru á svæðinu til viðbótar við 56.000 fermetra af atvinnuhúsnæði. Var þá einnig greint frá samkomulagi við stærstu eigendur lóðaeigendur á svæði 2, sem eru Gámakó og Vogabyggð, en síðarnefnda félagið er dótturfélag Hamla sem eru í eigu Landsbankans. Saman eiga þessi tvö félög um 70% af lóðum á svæði 2.

Fjórðungur verði leiguíbúðir eða búsetaréttaríbúðir

 Í samn­ing­um er kvöð um að leigu­íbúðir, stúd­enta- og bú­setu­rétta­r­í­búðir verði 20-25% íbúða á svæðinu.

Úr kynningarefni Reykjavíkur um Vogabyggð. Sjá má á myndinni hvernig …
Úr kynningarefni Reykjavíkur um Vogabyggð. Sjá má á myndinni hvernig áformað er að nýtt torg og göngubrú verði reist auk þess sem eins konar „kassi“ verður á gatnakerfinu í miðju svæðisins. Mynd/Reykjavík

Meðal þeirra framkvæmda sem ráðast átti í var uppbygging nýs skóla, nýrra gatna, landfyllingu, grjótvarna og nýrra stofnlagna. Var áætlaður kostnaður Reykjavíkur vegna framkvæmdanna talinn nema um átta milljörðum.

Nýr skóli á Fleyvangi

Úti af Vogabyggð liggur Naustavogur, en þar er tangi þar sem Snarfarahöfn er í dag. Samkvæmt aðalskipulagi er áfram gert ráð fyrir að höfnin haldi sér, en að einnig verði þar gert ráð fyrir skólabyggingu fyrir grunnskóla svæðisins. Samkvæmt áætlun má búast við um 300-670 grunnskólabörnum á svæðinu.

Þegar breytingatillögur á deili- og aðalskipulagi eru skoðaðar sést að gert er ráð fyrir að meirihluti þeirra bygginga sem núna eru á svæðinu muni víkja. Þetta staðfestir Björn Ingi Edvardsson, einn verkefnastjóra deiliskipulagsins, í samtali við mbl.is. Segir hann að framkvæmdir borgarinnar og breyting á ásýnd svæðisins muni að mestu fara eftir framkvæmdahraða lóðahafa, en eins og fyrr segir eru stærstu eigendurnir Vogabyggð og Gámakó.

Vogabyggð er norðan við Miklubraut, austan við Sæbraut og fyrir …
Vogabyggð er norðan við Miklubraut, austan við Sæbraut og fyrir sunnan Kleppsmýrarveg. Samkvæmt aðalskipulagi er einnig gert ráð fyrir talsverðri uppbyggingu íbúða austan megin við Elliðaárvog á Ártúnshöfða, þar sem nú er meðal annars B&L, Malbikunarstöðin Höfði og fleiri fyrirtæki. Mynd/Reykjavík

Segir Björn að í breytingatillögunum sé í raun ekki gert ráð fyrir að nein hús verði að standa, þó að lóðaeigendur geti tekið ákvörðun um það hvort þeir fari í enduruppbyggingu eða haldi í núverandi húsnæði.

Breytingar á Dugguvogi og Súðarvogi og ný göngubrú

Meðal þeirra hugmynda sem settar eru upp í deiliskipulagi Vogabyggðar er að samhliða aðalumferðaræð hverfisins, sem verður nýr Dugguvogur, verði sérmerktar hjólaakreinar í báðar áttir. Þá á að reisa nýtt torg við voginn fyrir neðan svæði 2, en það mun nefnast Vörputorg. Milli tangans þar sem Snarfarahöfnin er og áætlað er að byggja skóla og Vogabyggðar verður svo reist ný göngubrú, en við Elliðaárvog eru nú fyrir tvær göngu- og hjólabrýr sem tengja Ártúnshöfðann við Vogahverfið. Samkvæmt núverandi breytingatillögum er þó ekki gert ráð fyrir að nýja brúin verði með hjólaakrein.

Samkvæmt Birni Inga er breytingin á svæði 2 sú fyrsta sem er send í auglýsingu fyrir deiliskipulag, en hann á von á því að hin þrjú svæðin verði auglýst síðar. Þar er um að ræða svæði 1, sem er Gelgjutangi. Segir Björn að deiliskipulagsvinna fyrir svæðið sé komin vel af stað. Svæði 3 er smágerðari byggð við Súðarvog og Knarravog, en þar er ekki gert ráð fyrir jafn miklum massa í íbúðum og á svæði 2. Að lokum er svo svæði 4, en þar er meðal annars Endurvinnslan í dag. Björn segir að í skoðun sé hvernig útfærsla á því svæði verði, en meðal annars er horft til tengingar við Ártúnshöfða og þá þarf að hafa í huga samgönguás Reykjavíkur þar sem mögulegt er að komi hraðstrætó eða léttlest.

Mynd úr aðalskipulagi sem sýnir hvernig ný byggð skiptist niður …
Mynd úr aðalskipulagi sem sýnir hvernig ný byggð skiptist niður á svæðinu. Mynd/Reykjavík

Frestur til að skila athugasemdum til 30. september

Tillögurnar fyrir breytingar á bæði aðal- og deiliskipulagi, ásamt greinargerðum, liggja frammi í þjónustuveri Reykjavíkurborgar til 30. september og eru auk þes til sýnis á Skipulagsstofnun á Laugavegi 166. Þá er hægt að nálgast tillögurnar á vef Reykjavíkur.

Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega, til umhverfis- og skipulagssviðs, b.t. skipulagsfulltrúa,  eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 30. september 2016. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert