Drengurinn sagði strax frá

Níu ára drengur, sem er nemandi í Snælandsskóla í Kópavogi, hljóp í skólann og greindi fyrsta starfsmanni sem hann mætti og þekkti frá því að maður hefði reynt að fá hann upp í bíl til sín skömmu áður. „Hann stóð sig eins og hetja og við erum mjög stolt af því,“ segir Magnea Einarsdóttir, skólastjóri skólans, í samtali við mbl.is um málið.

Líkt og komið hefur fram gerði maður á svörtum jepplingi tilraun til að ná níu ára gömlum dreng upp í bíl sinn um áttaleytið í morgun. Drengurinn var á leið í skólann en maðurinn sagði að hann þyrfti að koma með sér þar sem móðir drengsins hefði slasast í umferðarslysi.

Starfsfólk skólans hafði hraðar hendur og hafði samband við móður drengsins og lögreglu. Lögregla kom í skólann og rætti við drenginn sem fór síðan heim með móður sinni. Magnea segir að drengnum hafi eðlilega verið brugðið vegna málsins en hafi þó verið rólegur.

Tölvupóstur var sendur til foreldra og forsjáraðila allra nemenda skólans og þá fengu kennarar einnig tölvupóst þar sem þeir voru beðnir um að ræða við nemendur og minna þá á að fara aldrei upp í bíl með ókunnugum.

Frétt mbl.is: Reyndi að lokka barn upp í bíl

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert