Farbann vegna falsaðs vegabréfs

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður skuli sæta gæsluvarðhaldi fyrir að hafa framvísað fölsuðu vegabréfi hjá Þjóðskrá Íslands í þeim tilgangi að fá íslenska kennitölu. Hæstiréttur úrskurðaði manninn þess í stað í farbann.

Sagðist ekki vita fæðingardag sinn

Að því er fram kemur í dómnum höfðu starfsmenn Þjóðskrár Íslands samband við lögreglu þann 23. ágúst sl. þegar þá grunaði að maðurinn hefði framvísað fölsuðu vegabréfi í þeim tilgangi að fá íslenska kennitölu vegna atvinnuleitar. Lögregla hafi komið á vettvang og haft afskipti af manninum og haldlagt vegabréfið.

Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að vegabréfið hafi verið breytifalsað samkvæmt skýrslu vegabréfarannsóknarstofu lögreglunnar á Suðurnesjum. Mynd af manninum og persónuupplýsingum hans hafi verið skeytt á vegabréfið.

Við yfirheyrslu lögreglu gaf maðurinn upp nafn og fæðingarár en sagðist ekki vita fæðingardag sinn. Sagðist maðurinn hafa verið á flakki um Evrópu í 10 ár. Kvaðst hann hafa komið til Íslands á falsaða vegabréfinu þann 12. ágúst sl. í þeim tilgangi að leita atvinnu hérlendis. Hann kvaðst ekki hafa önnur skilríki og ekki hafa átt samskipti við yfirvöld í þeim Evrópulöndum sem hann hefði dvalist í fyrir Íslandsförina.

Ekkert vitað um manninn 

Maðurinn viðurkenndi við skýrslutöku að hafa keypt fyrrgreint vegabréf af einhverjum manni fyrir 1.000 evrur og sá maður hefði ákveðið fæðingardag hans sem hefði verið skráður í vegabréfið. Hann hefði framvísað vegabréfinu við starfsmann Þjóðskrár eftir að honum hefði verið bent á að fara þangað.

Lögregla bíður nú eftir upplýsingum frá öðrum löndum til þess að staðreyna hvort maðurinn sé sá sem hann hafi sagst vera. Verið sé einnig að afla upplýsinga frá alþjóðlegum lögreglustofnunum um hvort hann hafi verið skráður í öðru Evrópulandi, s.s. með dvalarleyfi, og aðrar upplýsingar um hagi hans og afskipti erlendra lögregluyfirvalda af honum. Rannsókn lögreglu sé á frumstigi varðandi persónuhagi mannsins og því sé með öllu óljóst hver hann sé.

Þá sé ekkert vitað um forsögu hans og hvernig hann hafi framfleytt sér á fyrrgreindum áratug en hann hafi haft meðferðis til Íslands um 370 evrur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert