Nýtur og forðast sykur samtímis

Heilsa. Geir Gunnar Markússon næringafræðingur ásamt hundinum Böffý. Að mati …
Heilsa. Geir Gunnar Markússon næringafræðingur ásamt hundinum Böffý. Að mati Geirs Gunnars er sykur ekki eit- ur, en hann vill reyna að höfða til almennings með því að að beita ýmsum leiðum við að minnka sykurneysluna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er sykurlaus lífsstíll raunhæfur? Matvæla- og næringarfræðingurinn Geir Gunnar Markússon hefur velt þessu fyrir sér og mun deila hugsunum sínum með áhugasömum á samnefndum fyrirlestri á fimmtudag.

Geir Gunnar hefur mikinn áhuga á sykri á sama tíma og hann hefur engan áhuga á honum, í þeim skilningi að við ættum að borða sem minnst af honum. Hann telur að erfitt sé að forðast sykur með öllu en það sé þó hægt að beita ýmsum ráðum til að minnka sykurneysluna, en njóta hennar inn á milli.

Mér finnst sykurneysla orðin mjög mikil. Ég hef gaman af að versla í matinn, en þegar ég fer í búðina sé ég hvað sykur er löðrandi í öllu, ef maður er smá meðvitaður um það,“ segir Geir Gunnar, sem er matvæla- og næringarfræðingur að mennt. Hann starfar á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) í Hveragerði og er einnig ritstjóri á vef NLFÍ.

Geir Gunnar lítur mikið upp til Jónasar Kristjánssonar læknis og stofnanda NLFÍ. „Jónas var mikill frumkvöðull í heilsueflingu landsmanna. Hann talaði mikið í ræðu og riti um það að takmarka sykurneyslu og helst vildi hann útrýma sykrinum úr mataræði Íslendinga. Jónas lést árið 1960 og það er ekki seinna að vænna en 56 árum eftir andlát hans, að orð hans um heilsuspillandi áhrif hvíta sykursins eru tekin trúanleg. Ég reyni að vera málsvari hans, hans orð fengu ekki mikið vægi á sínum tíma og enn þann dag í dag er sykurneysla mjög mikil,“ segir Geir Gunnar. Á fimmtudag mun hann halda fyrirlestur í Heilsu og Spa í Ármúla undir yfirskriftinni: „Er sykurlaus lífsstíll raunhæfur?“ þar sem hann mun fjalla um leiðir til að minnka sykur í fæðunni og fræða áhugasama um hvaða áhrif óhófleg neysla hefur á líkamsstarfsemina.

En er sykurlaus lífsstíll raunhæfur?

„Stutta svarið er nei, við lifum í þannig heimi í dag að sykurinn er kominn til að vera. En ég er ekki að fara að halda þennan fyrirlestur með það að markmiði að fólk eigi að fara út í öfgar eða aldrei að borða sykur aftur, heldur frekar til að vekja fólk til umhugsunar um sykurneyslu,“ segir Geir Gunnar. Að hans mati er sykur ekki eitur, en hann vill reyna að höfða til almennings með því að beita ýmsum leiðum við að minnka sykurneysluna. „En þegar við erum að borða sykur þá eigum við að gera það „gourmet“, setjumst í uppáhaldsstólinn okkar með uppáhalds rjómalagaða, sykurhúðaða súkkulaðið okkar og njótum þess. Ekki borða fulla skál og éta á okkur gat. Sykurneysla á ekki að vera í brjálæði heldur eigum við að vera meðvituð um hvað við erum að gera.“

Fyrsta skrefið í átt að minni sykurneyslu er einmitt aukin meðvitund meðal neytenda, að mati Geirs Gunnars. „Það er einnig þörf á aukinni fræðslu og svo skiptir máli að lesa á umbúðir. Mjólkurvörur er til dæmis í grunninn mjög hollar, prótein- og kalkríkar vörur, en svo eru til mjólkurvörur sem búið er að bæta allt of miklum sykri í, eins og skyr og jógúrt. Einfalda reglan með mjólkurvörur er að reyna að velja þær alltaf hreinar og hvítar. Svo er hægt að sæta sjálfur heima með berjum til dæmis.“

Geir Gunnar þekkir þó dæmi þar sem fólk með matarfíkn hefur þurft að tileinka sér sykurlausan lífsstíl. „Sykur ýtir undir fíknarástand. Ég held að hinn almenni borgari ætti að lifa sykurminna lífi 365 daga á ári í stað þess að taka einhverja kúra. Það er kannski ekki svarið sem fólk leitast eftir, við virðumst alltaf vera að leita að einhverjum sexý kúrum. En þeir eru oftast ekki lausnin.“

Sætuefnin engu skárri

Umræða um sykurlausa drykki, fæðu og sætuefni verður sífellt meira áberandi en Geir Gunnar telur að sú neysla sé ekkert skárri kostur. „Náttúrulækningafélag Íslands hélt fyrirlestur í vor um sætuefni og þar komu meðal annars saman þrír sérfræðingar í pallborðsumræðu og þeir voru allir sammála um að við ættum frekar að temja okkur hóf í sykrinum í stað þess að nota sætuefni. Þetta eru gerviefni en ekki efni sem líkaminn er alveg sáttur við. Við ættum því frekar að fá okkur hnallþóruna hennar ömmu einu sinni, tvisvar í mánuði frekar en að reyna endalaust að búa til hollari uppskriftir með fullt af sætuefnum.“ Geir Gunnar nefnir dæmi um steviu sem dæmi um nýjasta tískufyrirbærið í heilsugeiranum. „Heilsa er mikið markaðssett og það er alltaf verið að finna eitthvað nýtt og skemmtilegt. Þetta er stór markaður en ég held að heilbrigt og gott mataræði, það er fæðuhringurinn, verði aldrei sexý eða nógu spennandi, en það er það sem virkar, að borða fjölbreytt og reglulega.“

Í kjólnum allt árið

Geir Gunnar mun fara yfir ýmislegt tengt minnkandi sykurneyslu á fyrirlestri sínum á fimmtudag. Hann segir þetta enga töfralausn, heldur tilraun til að breyta viðhorfi fólks. „Ég vona að þetta verði upphafið af einhverju frábæru, ég vil fá fólk með mér í hreyfingu og gott mataræði, ekki bara fram að jólum, heldur ætlum við að halda okkur í kjólnum fram að páskum og svo aftur til næstu jóla. Þetta verður upphaf að góðum lífsstíl, þótt lífsstíll sé ofnotað orð. Þetta snýst um nýtt líf þó svo að við ætlum ekki að sigra heiminn á einum degi.“

Fyrirlesturinn fer fram í Heilsu og Spa, Ármúla 9, fimmtudaginn 1. september klukkan 17:30 og er um klukkutími að lengd. Verð er 2.000 krónur en frítt er fyrir iðkendur Heilsu og Spa.

Lækningin í okkar höndum

Í starfi sínu vinnur Geir Gunnar mikið með fólki sem glímir við hina ýmsu lífsstílssjúkdóma. „Það er staðreynd að stóran hluta af lífsstílssjúkdómum má rekja til næringar. Mér finnst það áhugavert og í mínum störfum hvetur það mig áfram að með því að hvetja fólk til hollari lífshátta næ ég að bæta líf þeirra. Það eru lífsstílssjúkdómar sem eru að drepa okkur í dag, en ekki alvarlegar veirur eða sýkingar. Við höfum lækninguna í okkar höndum, sem er betri næring og meiri hreyfing.“
Sykur. Sykurneysla hefur verið hluti af samfélagsumræðunni í mörg ár.
Sykur. Sykurneysla hefur verið hluti af samfélagsumræðunni í mörg ár. mbl.is/Eggert
Lífstílssjúkdómar geta valdið dauða.
Lífstílssjúkdómar geta valdið dauða.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert