Reyndi að lokka barn upp í bíl

mbl.is/Þórður

Maður á svörtum jepplingi gerði tilraun til að ná níu ára gömlum nemanda Snælandsskóla í Kópavogi upp í bíl sinn í morgun. Stöðvaði hann drenginn, sem var á leiðinni í skólann, nálægt undirgöngum á Nýbýlavegi um klukkan átta í morgun og sagði honum að móðir hans hefði slasast í umferðarslysi.

Drengurinn brást hárrétt við aðstæðum, hljóp í burtu og greindi frá málinu þegar hann kom í skólann. Málið var þegar í stað tilkynnt til lögreglu, segir Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar við Dalveg, í samtali við mbl.is. Rannsókn á málinu hófst þegar í stað en lögregla hefur ekki haft uppi á manninum.

Þóra segir að ekki sé einsdæmi að fullorðið fólk reyni að ná til barna með þessum hætti, þ.e. að reyna að telja þeim trú um að fjölskyldumeðlimur hafi slasast. Hún biður þá sem kunna að hafa orðið vitni að þessu eða hafa upplýsingar um málið að hafa samband við lögreglu.

„Hann stóð sig vel í þessu, þetta hefur ekki verið skemmtileg upplifun fyrir hann. Hann tók rétta ákvörðun,“ segir Þóra. Hún segir mikilvægt, núna þegar skólar eru hafnir á ný, að foreldrar brýni fyrir börnum sínum að fara ekki upp í bíl með ókunnugum.

DV greindi fyrst frá málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert