Tækifæri til að efla háskólanám á landsbyggðinni

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég tel að með þessu hafi verið tekið stórt skref í þá átt að efla nám á háskólastigi á landsbyggðinni,“ sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra á Alþingi í dag þar sem hann ræddi þá ákvörðun sína að lögreglunám yrði framvegis kennt við Háskólann á Akureyri. Þrír háskólar hefðu verið metnir vel hæfir til þess að taka við náminu; Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík. Hans hefði síðan verið að taka ákvörðunina sem ráðherra.

„Þar fannst mér vega þyngst að allir skólarnir þrír voru hæfir til að taka á móti þessu námi og greinilega mjög vel hæfir. Þá vóg það líka þungt í ákvörðunartöku minni að þarna var um nýtt nám á háskólastigi að ræða og þar með tækifæri til þess að setja það í skóla eins og Háskólann á Akureyri, styrkja þar með mjög grunnstoðir þess skóla og efla háskólanám á landsbyggðinni, að sjálfsögðu að þeim skilyrðum uppfylltum að viðkomandi skóli uppfyllti allar þær akademísku kröfur sem gerðar eru um slíkt nám,“ sagði ráðherrann enn fremur.

„Við sjáum strax að þær áhyggjur sem m.a. voru reifaðar hér í þingsal um að kannski yrði um að ræða einn nemanda við skólann sökum þess að hann færi norður á Akureyri voru óþarfar því í morgun þegar ég kannaði það voru komnar 109 umsóknir um þetta nám, 52 umsóknir voru frá konum og 57 umsóknir frá körlum. Það er alveg augljóst að þessi ákvörðun hefur mælst vel fyrir hjá þeim sækja um þetta nám,“ sagði hann að lokum.

Illugi vísaði þar til ummæla Valgerðar Bjarnadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, á dögunum um að kannski yrði aðeins einn nemandi í lögreglunámi við Háskólann á Akureyri vegna staðsetningarinnar. Ráðherrann brást með umfjöllun sinni í þinginu við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, sem óskaði eftir skýringum á því hvers vegna hann hefði tekið þá ákvörðun að námið yrði kennt við Háskólann á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert