Úrsúla íhugar að leita réttar síns

Viðar Stefánsson verður prestur í Landakirkju í Vestmannaeyjum.
Viðar Stefánsson verður prestur í Landakirkju í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Sr. Úrsúla Árnadóttir er að hugleiða að leita réttar síns vegna skipunar Viðars Stefánssonar í embætti prests í Landakirkju, Vestmannaeyjaprestakalli. Hún telur að með skipuninni hafi Agnes M. Sigurðardóttir biskup brotið jafnréttislög.

Fjórir sóttust eftir embættinu. Það voru þau Anna Þóra Paulsdóttir, María Rut Baldursdóttir, Viðar og sr. Úrsúla. Sú síðastnefnda er sú eina sem hefur hlotið prestsvígslu en hin eru með embættispróf í guðfræði.

Sr. Úrsúla hefur leyst af sem prestur í Landakirkju undanfarna ellefu mánuði. Hún segir í samtali við mbl.is að það hafi komið henni verulega á óvart að hún hafi ekki hlotið embættið. Síðustu mánuðir hafi verið farsælir, henni hafi verið hrósað fyrir vel unnin störf og aldrei fengið kvörtun.

Kærunefnd jafnréttismála komst í október á síðasta ári að þeirri niðurstöðu að biskup hefði brotið jafnréttislög þegar sr. Þráinn Haraldsson var skipaður í embætti prests í Garðaprestakalli. Sr. Úrsúla kærði ráðninguna en í úrskurði nefndarinnar sagði að sr. Úrsúla hefði verið að minnsta kosti jafnhæf og sr. Þráinn til að gegn embættinu. Biskup bauð sr. Úrsúlu þrenn mánaðarlaun í sáttabætur vegna málsins og fór svo að hún þáði skaðabætur vegna málsins.

Frétt mbl.is: Biskup braut jafnréttislög

Úrsúla hefur starfað sem prestur í 8 ár. Hún starfaði þar áður sem þjónustustjóri hjá Íslandsbanka. Úrsúla hefur lokið diplomanámi í sálgæslufræðum og lýkur meistaraprófi í forystu og stjórnun frá Bifröst um áramótin.

Eftir því sem mbl.is kemst næst hefur sr. Úrsúla sótt um tíu embætti hið minnsta á þessu ári og síðasta ári. Sótti hún um embætti prests í Neskirkju, Árbæjarkirkju, Grafarvogskirkju, Selfosskirkju, Neskirkju og Landakirkju og embætti sóknarprests í Selfosskirkju, Oddaprestakalli, á Eyrarbakka og á Reynivöllum.

Í frétt Eyjafrétta segir að Viðar, sem er 26 ára gamall, hafi starfað sem leiðtogi í barnastarfi, meðal annars í Skálholti og í Áskirkju í Reykjavík. Þá hefur hann starfað sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁA undanfarna mánuði. Hann leggur stund á sálgæslufræði á framhaldsstigi hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Frétt mbl.is: Biskup bauð þrjá mánuði í bætur

Starfsreglur þjóðkirkjunnar og val og veitingu prestsembætta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert