Útþráin leiddi til Ísafjarðar

Jennifer Smith á fjallstindi ofan Skutulsfjarðar. Hún starfar nú við …
Jennifer Smith á fjallstindi ofan Skutulsfjarðar. Hún starfar nú við Háskólasetur Vestfjarða, þar sem hún kennir haf- og strandsvæðastjórnun. Hún hefur ferðast um víða veröld, enda alltaf verið haldin útþrá. Ljósmynd/Úr einkasafni

Segja má að líf Bandaríkjamannsins Jennifer Grace Smith hafi tekið miklum breytingum þegar hún ákvað skyndilega að flytja til Ísafjarðar, eftir að hafa búið í þéttbýlum stórborgum allt sitt líf.

Hún hafði hvergi fest rætur fyrr en hún hreifst af Vestfjörðum, en þar tekst henni meðal annars að svala helsta áhugamáli sínu, rannsóknum á matvælakerfum, sérstaklega aðgangi að ferskum mat, einkum fiski.

Hefur komið víða við

„Ég kem upprunalega frá stórri borg í Bandaríkjunum, Chicago, og stundaði síðar nám og vann í Peking í Kína,“ segir Jennifer, en þar áður hafði hún stundað nám í Frakklandi, í frönskum bókmenntum. Þar tók hún einnig námskeið í kínversku og kínverskum bókmenntum og fluttist að námi loknu til Kína, þar sem hún útskrifaðist með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum.

Síðan fluttist hún til Georgíu þar sem hún starfaði við alþjóðasamskipti tengd Bandaríkjunum og Kína.

„Ég hef alltaf haft þessa útþrá og hafði alltaf hugsað mér að búa í stórborgum,“ segir hún.

Tekið opnum örmum á Ísafirði

Þegar Jennifer heimsótti Ísafjörð árið 2011 sem ferðamaður varð ekki aftur snúið og fluttist hún þangað árið 2012.

Á Ísafirði stundaði hún nám við Háskólasetur Vestfjarða og útskrifaðist úr haf- og strandsvæðastjórnun, sem hún kennir nú sjálf við Háskólasetrið.

Einnig hefur hún starfað í hlutastarfi sem leiðsögumaður í ferðaþjónustunni, en sífellt fleiri skemmtiferðaskip hafa nú viðkomu á Ísafirði. Tungumálakunnáttan kemur sér einkar vel þar, að sögn Jennifer.

Vinnur líka í fiskbúð

Einnig hefur hún í hlutastarfi staðið vaktina hjá Kára Þór Jóhannssyni í Fiskbúð Sjávarfangs.

„Þetta er lítið samfélag, en það er mikið líf hér. Maður situr aldrei auðum höndum og fólkið hér býður alla velkomna, ég hafði ekki upplifað þetta. Ég er hamingjusöm hérna á Ísafirði,“ segir Jennifer Grace Smith.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert