Enn á vetrardekkjum í ágúst

Maðurinn ók um götur Ísafjarðar á negldum dekkjum.
Maðurinn ók um götur Ísafjarðar á negldum dekkjum.

Ökumaður sem leið átti um götur Ísafjarðar í vikunni var stöðvaður þegar lögreglumenn urðu þess varir að tveir hjólbarðar bifreiðarinnar voru negldir vetrarhjólbarðar. Ökumaður mun fá sekt fyrir athæfið. Í tilkynningu hjá lögreglu segir að hér virðist hafa verið um algjöran trassaskap að ræða. 

Í vikunni hafði lögreglan afskipti af ökumanni bifreiðar sem var með kerru í eftirdragi. Kerran með farmi á var það fyrirferðarmikil að hliðarspeglar dugðu ekki svo að útsýni væri fullnægjandi. Þá var kerran vanbúin hvað ljós varðar. Ökumaðurinn má búast við sekt vegna þessa. 

Tilkynnt var um fimm tilvik þar sem ekið var á búfé í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum.

Alls voru 17 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku.

Lögreglan stöðvaði einn ökumann í vikunni, grunaðan um að aka undir áhrifum áfengis. Þetta var í Önundarfirði aðfaranótt 28. ágúst.

Skráningarnúmer voru tekin af sjö ökutækjum sem ekki höfðu verið færð til lögbundinnar skoðunar.

Tilkynnt var um þrjú vinnuslys í vikunni; eitt í fiskvinnslufyrirtæki þar sem starfsmaður meiddist á hendi í færibandi, annað á löndunarbryggju þegar lyftara var ekið á manneskju sem gekk um vinnusvæðið og það þriðja við garðslátt þar sem lítill sláttutraktor valt yfir stjórnandann. Allir hinir slösuðu voru fluttir á heilbrigðisstofnunina á Ísafirði en hlutu ekki alvarleg meiðsl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert