Fá hugsanlega að hefja veiðar fyrr

Til skoðunar er í atvinnuvegaráðuneytinu hvort hefja eigi strandveiðitímabilið á svæði D, sem nær frá Hornafirði til Borgarbyggðar, fyrr en verið hefur til þess að koma til móts við óskir sjómanna á svæðinu sem telja fiskigöngu þar ekki í samræmi við það sem miðað er við í lögum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

„Við breytingar á úthlutunum aflaheimilda milli svæða fyrir árið 2016 var tilgangurinn m.a. að ná meiri jöfnuði á meðalveiði á bát. Á strandveiðivertíðinni sem nú er nýlokið náðist það markmið að ná jafnari meðalveiði á bát. Svæði D sker sig hins vegar töluvert úr en þar er veiði að jafnaði mun lakari en á hinum svæðunum. Vannýtt aflaheimild hefur verið í lok tímabila töluverð á svæði D samanborið við önnur svæði, slíkt á þó ekki við vegna ársins 2016 þar sem allar aflaheimildir nýttust,“ segir ennfremur.

Þá kemur fram að unnið sé að endurskoðun strandveiðikerfisins sem slíkt þar sem sérstaklega sé til skoðunar hugsanleg breyting á strandveiðitímabilinu á svæði D. Svæði A nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps, svæði B frá Strandabyggð til Grýtubakkahrepps og svæði C nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert