Fjölbreytni menntunar gæti minnkað

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verði fallið frá tekjutengingu afborgana námslána, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra að nýjum lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, eykur það líkurnar á að lánþegar geti lent í greiðsluerfiðleikum að loknu námi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Háskóla Íslands um frumvarpið. Lýsir skólinn yfir áhyggjum af þessu og bendir á að slíkt hefði áhrif á námsval og drægi þar með smám saman úr fjölbreytni menntunar, sem gæti reynst samfélaginu dýrkeypt þegar fram liðu stundir.

Háskóli Íslands bendir enn fremur á að þar sem gert sé ráð fyrir að allir nemendur fái sömu upphæð í styrk samkvæmt frumvarpinu standi þeir nemendur sem búi í foreldrahúsum betur að vígi en þeir sem ekki geti það. Velta megi fyrir sér hvort ekki felist í því mismunun eftir aðstæðum, til að mynda á milli nemenda af höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Einnig er sett spurningarmerki við 40 ára hámarkslánstíma og að endurgreiðslum skuli lokið við 67 ára aldur. Það gæti þýtt þunga greiðslubyrði fyrir þá sem fara seint í nám.

Taka verði enn fremur mið af stöðu kynjanna í þessu sambandi, meðal annars því að konur séu að meðaltali eldri en karlar þegar þær ljúki háskólanámi og hefðbundin kvennastörf séu að jafnaði ekki hálaunastörf. Lýst er áhyggjum af því að stuðningur við nemendur verði takmarkaður við 420 námseiningar og hámarkslán upp á 18 milljónir króna. Það gæti haft mikil áhrif á þá sem hafi í hyggju að stunda nám erlendis.

Frumvarpið muni enn fremur hafa í för með sér að námsskilyrði doktorsnema versni, bæði hér á landi og erlendis. Styrkir til doktorsnáms séu ekki margir hér á landi og vegna langvarandi undirfjármögnunar hafi Háskóli Íslands ekki bolmagn til þess að styrkja doktorsnema. Því sé afar brýnt að gætt verði að fjármögnun doktorsnáms við afgreiðslu frumvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert