Flugvöllurinn ekki á förum strax

Hlíðarendasvæðið, Reykjavíkurflugvöllur í baksýn.
Hlíðarendasvæðið, Reykjavíkurflugvöllur í baksýn. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur skrifað Degi B. Eggertssyni borgarstjóra bréf þar sem fram kemur að ganga verði út frá því að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað um lengri tíma en til 2022.

Staðsetning flugvallarins verði óbreytt svo lengi sem ekki liggi fyrir skýrt samkomulag við yfirvöld samgöngumála um annað sem samræmist vilja Alþingis. Ólöf leggur til í bréfinu að ríki og Reykjavíkurborg hefji hið fyrsta formlegar viðræður um framtíð flugvallarins.

Ólöf Nordal Innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal Innanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Engin afstaða tekin með lokun neyðarbrautarinnar

Ólöf kynnti efni bréfsins á ríkisstjórnarfundi í morgun. Auk framangreinds er þar nefnt að í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2001 til 2024 og 2010 til 2030 hafi verið gert ráð fyrir því að flugvöllurinn fari. 

Bendir Ólöf á í bréfinu að fyrirvarar hafi verið settir á skipulag borgarinnar í Vatnsmýri og uppbygging þar sé háð frekara samkomulagi við samgönguyfirvöld ríkisins.

Í þingsályktunarstefnu hafi einnig komið fram að landsskipulagsstefna miðaðist við núverandi staðsetningu Reykjavíkurflugvallar þar til samkomulag ríkis og Reykjavíkurborgar lægi fyrir um annað. Af athugunum á flugvallarkostum hafi hvorki verið dregin afgerandi niðurstaða um hvort rétt væri að færa Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni né hvaða annar kostur kæmi til greina.

„Það má því ljóst vera að óraunhæft er að ætla að sú stefna sem fram kemur í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010 til 2030 að annarri meginflugbraut Reykjavíkurflugvallar, N/S brautinni, verði lokað 2022, nái fram að ganga,“ segir í bréfinu, þar sem einnig kom fram að með því að loka Neyðarbrautinni svonefndu hefði ekki verið tekin afstaða til framtíðar flugvallarins í Vatnsmýrinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert