Mælingar staðfesta gasmengun

Múlakvísl. Myndin er úr safni.
Múlakvísl. Myndin er úr safni. mbl.is/Jónas Erlendsson

Mælingar sérfræðinga Veðurstofu Íslands við Múlakvísl í dag og í gær staðfesta að gasmengun á svæðinu er mikil. Sýna þær bæði talsverðan styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) og brennisteinsvetnis (H2S). Er fólk hvatt til að dvelja ekki lengi nálægt bökkum Múlakvíslar að svo stöddu.

Frétt mbl.is: Sérfræðingar á leið að Múlakvísl

Í tilkynningu frá náttúruvárteymi Veðurstofunnar kemur fram að sú skjálftavirkni sem hafi verið í Kötluöskjunni síðan í júní sé hefðbundin sumarhegðun Kötlu. Þessu samfara hefur verið viðvarandi há rafleiðni í Múlakvísl í allt sumar. Einnig hafa borist margar tilkynningar um brennisteinslykt þaðan.

Um helgina varð síðan snörp jarðskjálftahrina í öskjunni og voru í kjölfarið framkvæmdar gasmælingar í gær sem voru endurteknar í dag. Sýna þær báðar há gildi. Ekki er vitað hvort þessi gasmengun tengist skjálftahrinunni. Verið er að setja upp nema til að mæla samfellt gas við ána svo að hægt sé að fylgjast betur með þróuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert