Niðurskurður hefur ekki skilað sér

Reykjalundur
Reykjalundur mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Við efnahagshrunið 2008 voru fjárveitingar úr ríkissjóði til Reykjalundar skornar niður um 300 milljónir króna. Í kjölfarið var starfsemin endurskipulögð og dregið úr allri stoðþjónustu og var stöðugildum fækkað um 30 (úr 190 í 160) á Reykjalundi sem er stærsti vinnuveitandi Mosfellsbæjar fyrir utan sveitarfélagið, segir í tilkynningu frá Reykjalundi.

„Ríkissjóður hefur á undanförnum misserum aukið mjög útgjöld til málaflokks velferðarmála en ekkert af þeim fjármunum, sem skornir voru niður til Reykjalundar, hefur skilað sér heim aftur þrátt fyrir mjög brýna þörf og langa biðlista eftir endurhæfingu. Mikilvægt er að hafa í huga að meðalaldur sjúklinga á Reykjalundi er aðeins 48 ár.

Það eru því einstaklingar á virkum vinnualdri sem brýnt er að koma aftur út á vinnumarkaðinn. Rannsóknir á þjóðhagslegum ávinningi endurhæfingar sýna að hver króna sem ríkið setur í endurhæfingu skilar 8-9 krónum til baka í formi sparnaðar á öðrum útgjaldaliðum hins opinbera,“ segir í tilkynningu.

1200 sjúklingar á hverju ári

Reykjalundur er stærsta endurhæfingarmiðstöð landsins þar sem árlega dvelja um 1.200 sjúklingar hvaðanæva af landinu í fjórar til átta vikur í senn við endurhæfingu af margvíslegum ástæðum, svo sem eftir erfið og langvarandi veikindi, alvarleg slys, vegna ofþyngdar eða annara kvilla svo sem áunninna heilaskaða. Auk þess sækja milli fjögur og fimm þúsund manns göngudeild Reykjalundar á hverju ári. Á liðnum áratugum hafa þúsundir einstaklinga náð heilsu sinni á ný á Reykjalundi og komist aftur út á vinnumarkaðinn. Lágur meðalaldur sjúklinga sýnir glöggt hversu mikilvægu samfélagshlutverki stofnunin gegnir í því verkefni að koma þeim aftur til starfa í samfélaginu þar sem viðkomandi greiða skatta og skyldur og geta aftur lagt sitt af mörkum til þjóðarframleiðslunnar, segir ennfremur í tilkynningu sem má lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert