Sömdu tónverk byggt á Völuspá

Hæstánægð. Hafdís með Þórði, Eiri og Ásu við höfnina í …
Hæstánægð. Hafdís með Þórði, Eiri og Ásu við höfnina í Reykjavík. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Krakkarnir sem fóru út til Noregs í sumar til að taka þátt í tónsköpunarnámskeiði með norskum krökkum, segja að þeir hafi búist við að það yrði erfitt að semja tónverk í rúmlega þrjátíu manna hópi.

En það gekk bæði hratt og vel. Þeir komust að því hversu miklu er hægt að skila af sér ef maður leggur hart að sér.

„Við kennararnir hjálpuðum til við að líma þetta allt saman og leiðbeina, en það sem okkur fannst svo spennandi var að krakkarnir stýrðu að miklu leyti ferðinni. Það voru þeir sem lögðu til hugmyndirnar sem við reyndum svo að hjálpa þeim við að framkvæma, við vorum ekkert að mata þá. Allur þessi stóri hópur ungmenna átti að semja músík frá grunni á fimm dögum og frumflytja á tónleikum strax að því loknu. Það er ekkert áhlaupaverk, en þeim tókst að gera það með mikilli prýði,“ segir Hafdís Bjarnadóttir, sem er einn þeirra tónlistarkennara sem voru með hópi íslenskra og norskra krakka á tónsköpunarnámskeiði í Noregi í sumar.

„Þetta var fjörutíu manna hópur sem tók þátt í þessu, fimmtán krakkar frá Íslandi, sautján krakkar frá Noregi og nokkrir kennarar og leiðbeinendur, bæði íslenskir og norskir. Við unnum öll saman að því að setja saman tónverk sem krakkarnir frumfluttu í rústum gamallar kirkju, Domkirkeodden í Hamar.“

Með áhuga á goðafræðinni

Systurnar Eir og Ása Ólafsdætur og Þórður Hallgrímsson voru meðal þeirra íslensku tónlistarnemenda sem fóru til Noregs til að taka þátt í verkefninu. Þau segja tónverkið sem hópurinn samdi hafa verið unnið út frá hinum norræna menningararfi, sögu, náttúru, dulúð og tónlist.

„Þemað var Völuspá, en það var einmitt aðalástæðan fyrir því að ég hafði áhuga á að fara út og taka þátt í þessu. Ég hef brennandi áhuga á norrænni goðafræði og víkingaöldinni,“ segir Eir sem var ekki nema sjö ára þegar hún las Laxdælu ætlaða börnum. „Ég fékk alvöru áhuga þegar ég vann skólaverkefni þar sem ég kynnti mér nöfnu mína lækningagyðjuna Eir, en þá uppgötvaði ég líka marga guði sem fáir vita um. Ég datt alveg inn í þennan heim og nú er ég skráð í Ásatrúarfélagið.“

Skemmtilegur átakamikill texti

Ása og Þórður hafa einnig mikinn áhuga á norrænni goðafræði.

„Það hljómað mjög spennandi að fara á tónlistarnámskeið í útlöndum þar sem þungamiðjan átti að vera úr sjálfri Völuspá, þessi texti er myndrænn, átakamikill og geymir skemmtilegar sögur. „Bræður munu berjast og að bönum verðast,“ vitnar Þórður beint í þennan forna texta. „Það var frábært fyrir okkur að hafa að mestu frjálsar hendur með hvernig við umbreyttum og túlkuðum þennan magnaða texta yfir í tónlist. Við skiptum Völuspá niður í sex kafla, upphafið, sköpunina, hamingju lífsins, átökin, ragnarök, og að lokum nýja heiminn.“ Hafdís segir að þeir kennararnir hafi síðan í samvinnu við ungu tónskáldin raðað á þessa tímalínu eins og þeim fannst passa, því sumir krakkarnir höfðu verið að semja eitthvað glaðlegt á meðan aðrir sömdu eitthvað drungalegt og enn aðrir sömdu fyrir einhvern ákveðinn kafla.

Þau segja norsku krakkana ekki hafa þekkt Völuspá eins vel og íslenski hópurinn gerði.

„En við kynntum þetta fyrir þeim, sem var gaman fyrir okkur. Það var frábært að fá að kynnast þessum norsku krökkum. Samstarfið gekk mjög vel,“ eru þau öll sammála um, Ása, Eir og Þórður.

Andvaka fyrir frumflutning

Hafdís segir að það hafi gengið ótrúlega vel að láta alla njóta sín og sameina hugmyndir rúmlega þrjátíu krakka í einu verki.

„Það var mismunandi hversu mikið krakkarnir vildu taka þátt í því að semja, það eru ekki allir krakkar vanir því að fá að ráða og ekki allir sem vildu það, og þeir hinir sömu vildu þá frekar taka einvörðungu þátt í tónlistarflutningnum. Aðrir voru á fullu að semja og taka þátt í hugmyndavinnunni. Fyrstu tveir dagarnir fóru í að gera upphitunaræfingar og tónsmíðaæfingar og prófa ýmsilegt, athuga hvernig gengi að láta alla vinna saman og spila saman. Í framhaldinu var krökkunum skipt upp í minni hópa, en stundum vorum við öll saman í hóp og vorum að vinna eftir leiðbeiningum Guy Wood sem stýrði hópavinnunni. Þess á milli vorum við í litlum hópum þar sem hver hópur samdi lag og öll lögin voru svo sett saman í stóra prógramminu,“ segir Hafdís og bætir við að vissulega hafi fimm dagar verið stuttur tími til að semja og púsla öllu saman. „En það var líka unnið í tólf tíma á dag, frá níu á morgnana til níu á kvöldin. Þetta var rosaleg keyrsla og nóttina fyrir tónleika var ég andvaka, ég var orðin alveg grilluð í heilanum, að hlusta á æfingar allan daginn, vera alltaf í fjölmenni,“ segir Hafdís og hlær. „En þetta voru gríðarlega vel lukkaðir tónleikar.“

Eir segir að hún hafi ekki haldið að þetta yrði eins auðvelt og það var. „Af því ég bjóst við að það yrði erfitt að semja í rúmlega þrjátíu manna hópi. En svo gekk þetta bæði hratt og vel.“ Þórður segir að það sem þau hafi lært af þessu sé hversu miklu sé hægt að skila af sér ef maður leggur hart að sér.

Ætla að halda áfram í tónlist

Ása, Eir og Þórður segja að það hafi verið magnað að frumflytja verkið í eldfornum kirkjurústum, Domkirkeodden, sem er hluti af Hedmarksmuseet, skemmtilegu safni af gömlum timburhúsum við Mjøsa-vatn. „Kirkjan var byggð árið 1252 en hún var brennd í sjötíu ára stríðinu. Rústirnar eru friðaðar og yfirbyggðar með gleri. Þetta er sérlega áhrifaríkur staður og þarna er flottur hljómur. Við unnum með umhverfi þarna og hugsuðum tónlistina inn í þetta rými þegar við vorum að semja.“

Þórður, Eir og Ása hafa öll verið í tónlistarnámi frá því þau voru lítil. Þórður leikur á trompet, Eir á selló og Ása á píanó og bassa. Þau ætla öll að halda áfram í músíkinni og vonast til þess að flytja verkið hér heima á Íslandi. „Þá þurfum við að aðlaga það, skera niður af því að norsku krakkarnir eru ekki hér.“

Glæsileg. Allir glaðir saman, íslensku krakkarnir, þeir norsku og kennarar, …
Glæsileg. Allir glaðir saman, íslensku krakkarnir, þeir norsku og kennarar, eftir tónleikana í Domkirkeodden.
Klifurkettir. Íslensku stelpurnar Sigrún, Úlfhildur, Áróra, Eir og Ása klifruðu …
Klifurkettir. Íslensku stelpurnar Sigrún, Úlfhildur, Áróra, Eir og Ása klifruðu mikið í trjám í Noregi, enda ekki mörg slík á hverju strái heima.
Svalt. Þórður trompetleikari og Sævar básúnuleikari á æfingu í rústunum.
Svalt. Þórður trompetleikari og Sævar básúnuleikari á æfingu í rústunum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert