Vilja aðkomu þjóðar að flugvallarmáli

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Á þriðja tug þingmanna eru flutningsmenn þingsályktunartillögu um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli áfram vera í Vatnsmýrinni í Reykjavík. 

Frétt mbl.is: Kosið um framtíð flugvallarins

Greint var frá þingsályktunartillögunni fyrir rúmri viku á mbl.is. Sagði Þorsteinn Sæmundsson, einn flutningsmannanna, þá þverpólitískan áhuga liggja að baki tillögunni. Svo virðist vera, þar sem flutningsmenn tillögunnar koma úr öllum flokkum nema Pírötum og Bjartri framtíð. Flestir flutningsmenn koma úr röðum ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokks eða Sjálfstæðisflokks.

Þorsteinn sagði að með atkvæðagreiðslunni fengist endanleg og marktæk niðurstaða um það hvort Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram á sínum stað eða hvort hann ætti að fara.

Flutningsmenn tillögunnar eru í þeirri röð sem þeir birtast á vef Alþingis: Ögmund­ur Jónas­son, Höskuld­ur Þór­halls­son, Elín Hirst, Kristján L. Möller, Jón Gunn­ars­son, Ásmund­ur Friðriks­son, Ásmund­ur Ein­ar Daðason, Brynj­ar Níels­son, Elsa Lára Arn­ar­dótt­ir, Geir Jón Þóris­son, Har­ald­ur Bene­dikts­son, Har­ald­ur Ein­ars­son, Jóhanna María Sig­munds­dótt­ir, Karl Garðars­son, Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir, Lí­neik Anna Sævars­dótt­ir, Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, Val­gerður Gunn­ars­dótt­ir, Vigdís Hauks­dótt­ir, Vil­hjálm­ur Árna­son, Páll Jóhann Páls­son, Will­um Þór Þórs­son, Þor­steinn Sæ­munds­son, Þórunn Eg­ils­dótt­ir.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir m.a. að öll skynsamleg rök hnígi í þá átt að halda flugvellinum og miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýrinni en verði þar einhver breyting á sé nauðsynlegt að öll þjóðin fái að koma að þeirri ákvörðun á beinan og lýðræðislegan hátt.

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefði ritað borgarstjóra bréf þar sem fram kæmi að flugvöllurinn væri ekki á förum í bráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert