Ákvarðanir sem oft eru óvinsælar

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segist ekki geta tjáð sig um mál einstakra lögreglumanna en að hún virði rétt allra starfsmanna til að nýta þau réttarúrræði sem séu til staðar telji þeir á sig hallað. Þetta segir hún í framhaldi af umfjöllun RÚV í gær um að lögreglumaður hjá embættinu hafi kvartað til innanríkisráðuneytisins vegna meints eineltis Sigríðar í sinn garð. Krefur lögreglumaðurinn embættið um bætur vegna framgöngu Sigríðar.

Í tilkynningu frá Sigríði til fjölmiðla rétt í þessu segir hún að sem lögreglustjóri þurfi hún að taka ákvarðanir sem ekki séu alltaf líklegar til vinsælda. „Það á ekki síst við um þær sem hafa í för með sér breytingar á verkefnum eða valdsviði einstaklinga. Hitt er skýrt að sem lögreglustjóri er það ábyrgð mín að skipta verkum og sú ábyrgð er ótvíræð,“ segir hún.

Sigríður segir að síðan hún tók við hafi verið gerðar víðtækar breytingar og „líkt og títt er um slíkar breytingar geta þær verið umdeildar, hitt í mark hjá sumum en valdið óánægju annarra“.

Hún segist hafa hlustað á ábendingar lögreglumanna en að margar þeirra hafi borist í gegnum fjölmiðla frá nafnlausum aðilum. „Ég kysi auðvitað helst að eiga ekki í slíkum samskiptum en vissulega getur sú leið í sumum tilfellum verið eina leiðin fyrir einstaka starfsmenn eða stjórnendur til að koma á framfæri gagnrýni á stjórnvaldsákvarðanir. Fjölmiðlar eiga að veita aðhald og lögreglan er þar engin undantekning frekar en aðrar stofnanir. Ég hef á því fullan skilning og sumt sem fram hefur komið hefur vakið okkur til vitundar um hluti sem mættu betur fara, bæði varðandi innri og ytri samskipti,“ segir Sigríður.

Yfirlýsinguna má lesa í heild hér að neðan:

Yfirlýsing vegna fyrirspurna fjölmiðla um kvörtun lögreglumanns:

Ég get ekki tjáð um mig um mál einstakra lögreglumanna en virði rétt allra opinberra starfsmanna til að nýta þau réttarúrræði sem til staðar eru, telji þeir á sig hallað. Ákvarðanir sem teknar eru af stjórnendum lögregluembætta eru ekki alltaf líklegar til vinsælda. Það á ekki síst við um þær sem hafa í för með sér breytingar á verkefnum eða valdsviði einstaklinga. Hitt er skýrt að sem lögreglustjóri er það ábyrgð mín að skipta verkum og sú ábyrgð er ótvíræð. Ég hef gert margar breytingar frá því að ég tók við sem lögreglustjóri og miða þær allar að því að gera lögregluna aðgengilegri, skipurit flatara, boðleiðir styttri og en fyrst og fremst að bæta þjónustu okkar við borgarana. Einnig hef ég lagt aukna áherslu á ákveðna málaflokka eins og kynferðisbrotamál, mansal og heimilisofbeldismál og þar er starfsfólk embættisins búið að vinna frábært starf í erfiðum verkefnum. Líkt og títt er um slíkar breytingar geta þær verið umdeildar, hitt í mark hjá sumum en valdið óánægju annarra. Ég hef hlustað á ábendingar lögreglumanna en mikið af óánægjunni hefur borist frá nafnlausum aðilum í gegnum fjölmiðla. Ég kysi auðvitað helst að eiga ekki í slíkum samskiptum en vissulega getur sú leið í sumum tilfellum verið eina leiðin fyrir einstaka starfsmenn eða stjórnendur til að koma á framfæri gagnrýni á stjórnvaldsákvarðanir. Fjölmiðlar eiga að veita aðhald og lögreglan er þar engin undantekning frekar en aðrar stofnanir. Ég hef á því fullan skilning og sumt sem fram hefur komið hefur vakið okkur til vitundar um hluti sem mættu betur fara, bæði varðandi innri og ytri samskipti. Ég hyggst leggja mig fram um að hlusta betur á ólík sjónarmið en um leið er enginn bilbugur á mér og samstarfsfólki mínu að halda áfram því umbreytingarverkefni sem við hófum hér hjá embættinu fyrir tveimur árum.

Virðingarfyllst,

Sigríður Björk Guðjónsdóttir

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert