Loðnar, veikar og opnar tillögur

Nýir búvörusamningar hafa verið umdeildir.
Nýir búvörusamningar hafa verið umdeildir. mbl.is/Eggert

Ný hugsun í mótun landbúnaðarstefnu sem formaður atvinnuveganefndar Alþingis hefur talað um skilar sér ekki í breytingartillögu sem meirihluti nefndarinnar hefur gert við nýjan búvörusamning. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir tillögurnar loðnar, veikar og opnar.

Annarri umræðu um búvörulögin lauk á Alþingi í dag en ýmis hagsmunasamtök hafa gagnrýnt þau, þar á meðal FA. Samningarnir voru samþykktir í vetur og eiga að gilda til tíu ára. Þeir bíða enn samþykkis Alþingis.

Í yfirlýsingu segir FA breytingartillögur meirihluta atvinnuveganefndar ófullnægjandi. Þau hafa áður sagt að búvörusamningar til tíu ára skaði neytendur og samkeppni í landinu með afdrifaríkum og langvarandi hætti.

„Orðin í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar um nýja hugsun og ný vinnubrögð við mótun landbúnaðarstefnu þar sem fulltrúar breiðra hagsmuna komi að borðinu eru voðalega falleg. Svo eru bara lagaákvæðin sem eiga að færa þessa hugsun inn í lögin mjög loðin, opin og veik að okkar mati,“ segir Ólafur við Mbl.is.

Engin trygging fyrir skemmri gildistíma

Í áliti meirihluta nefndarinnar er meðal annars lagt til að landbúnaðarráðherra stofni samráðshóp stjórnvalda, bænda, neytenda, afurðastöðva, launþega og atvinnulífs um landbúnaðarstefnuna. Þá hafa hugmyndir verið uppi um að stytta samningstímann úr tíu árum í þrjú og að þá fari fram endurskoðun á samningnum.

Ólafur fullyrðir hins vegar að í breytingartillögunum sé hvorki trygging fyrir því að búvörusamningurinn gildi aðeins í þrjú ár né að nýja fyrirkomulagið verði það sem komi út úr starfi samráðshópsins sem ráðherra á að koma á fót.

„Eins og þetta er orðað sjáum við ekki betur en að sá möguleiki sé í rauninni alveg opinn að bændur felli það bara að það verði nokkuð nýtt fyrirkomulag á þessu og að þessi vondi samningur haldi áfram til tíu ára,“ segir Ólafur og vísar til ákvæðis um að bændur skuli eiga þess kost að kjósa um nýjan búvörusamning eða viðbætur við fyrri samninga.

Að mati FA hafi átt að henda samningnum sem var undirritaður í febrúar og byrja upp á nýtt. Það sé ótækt að halda því opnu að byggt verði á samningnum í tíu ár.

„Þarna hefði þurft að vera miklu skýrar orðaður lagatexti,“ segir Ólafur.

Þriðja og síðasta umræða Alþingis um búvörusamningana er enn eftir og segist Ólafur telja að það hljóti að vera metnaðarmál fyrir Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar, og meirihlutann að sú nýja hugsun sem hann hafi talað fyrir komist skýrt inn í lagatextann.

„Ef hún gerir það ekki er hún merkingarlaus,“ segir Ólafur.

Yfirlýsing Félags atvinnurekenda

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert