Skapi gríðarleg tækifæri

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Golli

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hyggst gefa út reglugerð í næstu viku sem muni vonandi leiða til þess að ákvörðun um tengipunkt í Ísafjarðardjúpi verði tekin í þessum mánuði. Hún segir að ef þetta verði að veruleika muni skapast gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustu sem og annarri uppbyggingu á Vestfjörðum.

„Reglugerðin kemur sannarlega í septembermánuði og ég vonast til að hún verði sett, og að hún verði klár strax í næstu viku. Þannig að þá verði ekkert sem kallar á aðkomu Alþingis eða ráðuneytisins varðandi frekari reglusetningu til þess að hamla að sú ákvörðun, að ákveða tengipunktinn, verði tekin vonandi í þessum mánuði. Það er það sem við erum að vinna að,“ sagði Ragnheiður í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Vatnsafl sem bíði eftir að komast í notkun

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var fyrirspyrjandi, en hann benti á að ný tækifæri í raforkuframleiðslu væru að opnast á Vestfjörðum og tímabært væri að hefja framkvæmdir. Haraldur spurði ráðherra hvort einhver fyrirstaða væri í regluverkinu varðandi það að geta hafið byggingu á nýjum tengipunkti Landsnets í Ísafjarðardjúpi til að sækja þá orku sem þar væri til staðar. Sá tengipunktur væri forsenda fyrir verkefninu.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann sagði enn fremur að þarna væru mun fleiri orkukostir til staðar og fleiri tengipunktar fyrir margar virkjanir. Þetta væri ný og óvænt staða fyrir Vestfirði, en fjórðungurinn hefði um langt skeið þurft að búa við samdrátt.

Ragnheiður Elín segir þetta þjóðþrifamál. Þarna sé vatnsafl „sem bíður eftir að komast í notkun“. Verkið sé enn fremur þjóðhagslega hagkvæmt og mikilvægt.

Varðar fjórar virkjanir

Hún bendir á að ekki sé þörf á lagabreytingum og að ekkert sé í regluverkinu sem hamli framgangi málsins, sem sé nú til efnislegrar meðferðar hjá Orkustofnun og Landsneti. Málinu hafi verið fylgt fast eftir í ráðuneytinu, sem eigi í góðu samstarfi við fyrrgreindar stofnanir. Nú sé Landsnet að leggja lokahönd á svokallaðan netmála sem greiði fyrir öllu regluverki. Landsnet hafi óskað eftir því við ráðuneytið að það setji reglugerð til að styrkja grundvöll netmálans.

„Við erum með þá reglugerð í lokadrögum og ég vonast til að geta sett hana strax eftir helgi, og þá er ekkert í regluverkinu sem kemur í veg fyrir þetta,“ sagði Ragnheiður.

Hún tekur fram að málið varði fjórar virkjanir sem geti tengst inn á tengipunktinn. Vonandi verði hægt að taka ákvörðun í þessu máli í þessum mánuði.

Haraldur segir málið mikilvægt, en það bæði tryggi orku- og afhendingaröryggi á Vestfjörðum, sem skapi forsendur fyrir aðra atvinnuuppbyggingu sem væri gríðarlega mikilvæg fyrir fjórðunginn og landið allt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert