Forsetafrúin hefur átak gegn mænusótt

Eliza Reid forsetafrú Íslands, gaf skammt af bóluefni með drykk …
Eliza Reid forsetafrú Íslands, gaf skammt af bóluefni með drykk sínum. mbl.is/Þórður

Eliza Reid forsetafrú hrinti í morgun af stað átakinu Klárum málið sem er sameiginlegt átaksverkefni UNICEF á Íslandi og Tes & kaffis gegn mænusótt.

Næstu tvær vikur býðst landsmönnum að taka virkan þátt í baráttunni gegn mænusótt, einnig þekkt sem lömunarveiki. Te & kaffi gefur andvirði einnar bólusetningar gegn mænusótt af hverjum seldum drykk fram til 18. september og er viðskiptavinum boðið að gera það sama.

Mænusóttarveiran er mjög smitandi og getur valdið bæði lömun og dauða. Engin lyf eru til sem lækna mænusótt. Einungis er hægt að koma í veg fyrir að fólki fái veikina og það er gert með bólusetningu, en hver skammtur af bóluefninu kostar einungis 25 krónur.

Eliza gaf skammt af bóluefni með drykk sínum.

Sigríður Víðis Jónsdóttir segir UNICE á Íslandi hafa leitað til forsetafrúarinnar, sem er kanadísk að uppruna, um að hefja átakið  þar sem mænusóttin hafi verið mjög skæð í Kanada á sínum tíma líkt og hér á landi. „Í Kanada var margt fólk sem bæði lamaðist og lést og enn í dag er þar fólk sem glímir við afleiðingar veikinnar líkt og hér á landi,“ segir Sigríður og kveður Elizu hafa tekið beiðninni vel.

Þetta er í fjórða sinn sem Te & kaffi standa fyrir kaffihúsaátaki með UNICEF á Íslandi og í þriðja sinn sem safnað er vegna mænusóttar. Framtakinu hefur verið tekið frábærlega hér á landi og samtals safnast andvirði 218.744 bólusetninga gegn mænusótt, að því er segir í fréttatilkynningu. 

Þegar ráðist var í fyrsta kaffihúsaátakið á Íslandi, árið 2013, var mænusótt landlæg í þremur ríkjum og 416 tilvik af sjúkdómnum komu upp á heimsvísu. Núna eru ríkin tvö, Afganistan og Pakistan, og einungis 21 tilvik hafa komið upp í heiminum á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert