Helvíti gott ferðalag

Gísli Örn Garðarsson.
Gísli Örn Garðarsson. mbl.is/Ásdís

Gísli Örn Garðarsson, leikari, leikstjóri, framleiðandi og stofnandi Vesturports leikur nú annað karlaðalhlutverkið í nýrri mynd Baltasars Kormáks, Eiðinum. Þar leikur hann mann úr undirheimunum og segist hann hafa fengið að slást við Baltasar, sem bæði leikur í myndinni og leikstýrir.

Gísli leikur einnig í nýjum breskum sjónvarpsþáttum, Bjólfskviðu, en í átta mánuði dvaldi hann í skosku hálöndunum við tökur. Hann skrifaði undir fimm ára samning en sá fljótlega að hann gæti ekki verið svo lengi frá fjölskyldunni og lét skrifa sig úr þáttunum. Eftir mikla vinnutörn síðasta vetur er komin uppskera og tími til að njóta í smá stund, en Gísli notaði sumarið til að sinna fjölskyldunni. Og afrakstur mikillar vinnu má sjá í bíóhúsum borgarinnar í næstu viku, þegar Eiðurinn verður frumsýndur.

Örlög Gísla ráðinn í fyrstu seríu

Bjólfskviða, eða Beowulf, eru nýir breskir þættir sem sýndir verða á RÚV í janúar en þar leikur Gísli leikur eitt aðalhlutverkið. „Það var risadæmi, þrettán þættir fyrir ITV-sjónvarpsstöðina sem er keppinautur BBC. Fimm milljarða króna sería, sú stærsta sem ITV hefur gert, eins konar léttútgáfa af Game of Thrones, ætluð fyrir alla fjölskylduna. Tröll, menn á hestum og forboðnar ástir,“ segir hann og hlær. „Þetta var helvíti gaman, stór hópur og mikið í þetta lagt. Þetta eru ekta þættir fyrir fjölskylduna að horfa á saman, það eru tröll og illir vættir, en það er allt gert í tölvu. Það voru menn í grænum búningum að ráðast á okkur og svo eru þeir teiknaðir inn á eftir á,“ útskýrir Gísli.

Þegar að fyrsta sería var hálfnuð ákvað Gísli að hann vildi ekki vera í burtu í fimm ár. „ Þetta var aðeins of langur tími. Of löng útgerð. Ég byrjaði þá að viðra hugmyndir þar sem persóna mín ætti ekki afturkvæmt. Að koma mér út úr samningnum. Umboðsmaðurinn minn átti ekki orð. En ég er svo sem vanur því að fara mínar eigin leiðir. Og það tókst.“ Varstu bara drepinn í fyrstu seríu? „Ja, nú má ég náttúrulega ekki segja neitt,“ segir hann og skellihlær. „En ég er alla vega ekki á leiðinni aftur til Newcastle.“

Fílum báðir að taka hlutina alla leið

Þegar Gísli kom heim frá Englandi hellti hann sér beint í tökur á Eiðinum. Hann segir samstarfið við Baltasar hafa verið mjög gott, en þeir þurftu m.a. að slást. „Okkur lendir saman og það gengur mikið á. Mikið af átakasenum. Við fílum báðir að taka hlutina alla leið og Balti gerir sterkar kröfur til manns, þannig að það var mikið um marbletti,“ segir hann. „Það var mikið verið að minna hvorn annan á að maður myndi fá það borgað seinna. Þegar ég var að berja hann með hjólastýri minnti hann mig á að við ættum eftir fleiri bardagasenur,“ segir hann og hlær.

Það er enginn bara vondur

Gísli segir að það taki á að leika glæpamann og hann hafi þurft að gefa sig allan í verkefnið.  „Ég fór 100% í þetta og lokaði á allar símalínur og öll önnur verkefni á meðan á þessu stóð. Fór alveg á kaf inn í þetta. Maður er í þessu ástandi á meðan á þessu stendur. Það er vinnan. Það er verkefnið sem maður tekur að sér,“ segir hann. „Balti lagði þær línur mjög skýrt. Það er enginn bara vondur. Það liggur eitthvað að baki,“ segir hann. „Hann lagði svo mikla áherslu á þetta mannlega. Það er svo auðvelt fyrir mann og kannski fyrsta leiðin ef maður er að leika einhvern vondan að nota einhverja rödd eða „attitude“ sem er einhvern veginn utan á. Maður þarf að losa sig við það allt saman og fara í þetta innan frá. Það var helvíti gott ferðalag,“ segir hann.

Ítarlegt viðtal við Gísla Örn er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert