Bara 6 bókstafir á lausu

Þingkosningar fara fram 29. október nk. og framboðslistar verða auglýstir …
Þingkosningar fara fram 29. október nk. og framboðslistar verða auglýstir í síðasta lagi 10 dögum fyrir kjördag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innanríkisráðuneytið hefur afgreitt þrjár umsóknir um listabókstafi á yfirstandandi kjörtímabili. Sé haft í huga að fimmtán flokkar fengu úthlutað listabókstaf fyrir síðustu þingkosningar og buðu sannanlega fram og að aðeins er úthlutað broddstöfum, þá eru nú einungis sex bókstafir á lausu.

Á kjörtímabilinu hefur ráðuneytið úthlutað Viðreisn bókstafnum C, Flokki fólksins bókstafnum F og Íslensku þjóðfylkingunni E. Þá samþykkti ráðuneytið einnig beiðni Pírata um að fá úthlutað P, sem tilheyrði Lýðræðishreyfingunni í síðustu kosningum og buðu Píratar þá fram undir bókstafnum Þ.

Íslenska staf­rófið sam­an­stend­ur af 32 bók­stöf­um og hefur skapast hefð fyrir því að úthluta ekki broddstöfum til að fyr­ir­byggja rugl­ing.

Ef horft er til þess að fimmtán stjórn­mála­hreyf­ing­ar „eiga“ enn bók­staf frá síðustu kosn­ing­um og að þrír nýir flokkar hafa nú fengið út­hlutað bókstaf þá eru eftirfarandi sex bókstafir nú á lausu: N, O, U, Y, Þ og Æ. 

Óljóst hvort Ö fái að vera með

Búast má þó við að G  og K bætist í hóp lausra bókstafa á næstunni. Aðalfundur Hægri grænna, sem eiga listabókstafinn G, samþykkti fyrr á árinu að leggja flokkinn niður og ganga til liðs við Íslensku þjóðfylkinguna og eins hefur Sturla Jónsson, sem á listabókstafinn K, tilkynnt að hann verði á lista Dögunar í næstu kosningum.

Ekki er þá alveg á hreinu hvort Ö geti fengið stöðu listabókstafs, en samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu yrði væntanlega mælt með því að aðrir stafir væru nýttir áður.

Hvað síðan verður um listabókstafina C, H, I, J, K, L, M, R sem eru í eigu Samstöðu, Húmanistaflokksins, Flokks heimilanna, Regnbogans, Framfaraflokksins, Lýðræðisvaktarinnar, Landsbyggðarflokksins og Alþýðuhreyfingarinnar kemur svo í ljós  ekki síðar en 10 dögum fyrir kjördag er Lands­kjör­stjórn ber að aug­lýs­a fram­boðslista í síðasta lagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert