Flestar íbúðir fyrir einstaklinga og pör

Rauði reiturinn er sá reitur þar sem íbúðirnar munu verða …
Rauði reiturinn er sá reitur þar sem íbúðirnar munu verða reistar. Blái reiturinn sýnir nýjar höfuðstöðvar CCP og stækkunarreiturinn verður þar sem hverfisstöð Reykjavíkur er í efra hægra horni Vísindagarða, við hlið Íslenskrar erfðagreiningar.

Félagsstofnun stúdenta mun fara í alútboð í vetur vegna uppbyggingar á meira en 200 stúdentaíbúðum á svæði Vísindagarða í Vatnsmýri. Um verður að ræða að mestu einstaklings- og paraíbúðir. Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavikur, í samtali við mbl.is, en greint var frá því í gær að borgarráð hefði samþykkt að bæta við meira en 200 íbúðum á svæðinu.

Frétt mbl.is: 200 nýjar stúdentaíbúðir í Vatnsmýri

Reiturinn sem um ræðir er á horni Sæmundargötu og Eggertsgötu, beint á móti núverandi stúdentagörðum og í sömu línu og Alvogenhúsið á Vísindagarðasvæðinu. Er hann á meðfylgjandi mynd merktur með rauðum lit. Nýjar höfuðstöðvar CCP á svæðinu eru merktar með bláum lit.

Útboð öðru hvoru megin við áramót

Dagur segir að mikið vanti af stúdentaíbúðum og því sé hann gríðarlega ánægður að þetta skref hafi náðst í gegn. Segir hann Félagsstofnun stúdenta kunna vel til verka í þessum efnum og því megi gera ráð fyrir útboði öðru hvoru megin við áramót og framkvæmdir í framhaldi af því.

Gert er ráð fyrir rúmlega 200 íbúðum og segir Dagur að þær gætu hæglega farið upp í 210 eða 220 í heild á reitnum.

Þar sem íbúðirnar verða á vegum Félagsstofnunar stúdenta er um að ræða íbúðir í svokölluðu stúdentakerfi, en mikil umframeftirspurn er eftir þeim íbúðum þar sem þær bjóðast jafnan á lægra verði en markaðsverð fyrir sambærilegar íbúðir. Eru að jafnaði nokkur hundruð einstaklinga á bið eftir íbúð. Dagur segir að fjölgun stúdentaíbúða í borginni sé jákvætt að öllu leyti og muni hjálpa til við að koma til móts við hóp fólks í námi sem vanti húsnæði.

Vísindagarðar stækka einnig

Samhliða því að samþykkja nýjar íbúðir var samþykkt að stækka svæði Vísindagarða upp í 8,3 hektara. Dagur segir að svæðið sem um ræðir sé fyrir aftan húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem nú er hverfisstöð. „Þetta þýðir að þegar hverfisstöðin flytur megi byggja þarna þekkingartengt húsnæði,“ segir Dagur.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá deiliskipulag Vísindagarðareitsins eins og það var þegar CCP tilkynnti að það myndi fara í uppbyggingu á svæðinu um mitt síðasta ár. Á reitunum milli Oddagötu og Sæmundargötu er þegar búið að reisa stúdentagarða og verður nú fimmta klasanum bætt við á nýja reitnum (rauður litur).

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar. Eggert Jóhannesson

Á myndinni er einnig merkt inn nýlegt húsnæði Alvotech, en á reitnum þar á milli getur Alvotech stækkað húsnæði sitt á komandi árum.

Ef við höldum áfram í átt að Íslenskri erfðagreiningu koma næst þrír reitir. Í miðjunni verður hjarta svæðisins með vísindagörðum og torgi. Dagur segir að hinir reitirnir séu hugsaðir til ráðstöfunar fyrir þekkingarfyrirtæki sem hafi áhuga á að byggja á svæðinu.

Á bláa reitnum mun svo CCP reisa 11 þúsund fermetra húsnæði, en Dagur segir að fyrirtækið ætli sjálft að nýta um 4 þúsund fermetra en að hinir verði undir sprotafyrirtæki sem CCP vilji leyfa að vera innan um starfsemi sína.

Að lokum er svo húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar og þar til hliðar er grænn reitur þar sem hverfisstöð Reykjavíkur er nú, en hefur verið samþykkt að byggja megi þekkingartengt húsnæði þegar hverfisstöðin fer á brott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert