Kristján og Njáll í fyrstu sætum í NA

Njáll Trausti og Kristján Þór eru í efstu tveimur sætunum …
Njáll Trausti og Kristján Þór eru í efstu tveimur sætunum hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra mun áfram skipa fyrsta sæti á lista sjálfstæðismanna á Norðausturlandi, en hann hlaut örugga kosningu í fyrsta sætið. Harðari barátta var um annað sætið, en Njáll Trausti Friðbertsson, Valgerður Gunnarsdóttir og Ingibjörg Jóhannsdóttir börðust um það.

Mjótt var á munum að sögn Ragnars Sigurðssonar hjá kjördæmisráði flokksins í kjördæminu, en Njáll var nokkrum atkvæðum ofar en Valgerður.

Talning stendur yfir vegna 3. sætis, en gert hefur verið hádegishlé á fundinum og verða úrslit í þriðja sæti kynnt eftir hlé. Þeir sem buðu sig fram í það sæti eru Valdimar O. Hermannsson, Valgerður Gunnarsdóttir og Ingibjörg Jóhannsdóttir. Auk þeirra hafði Arnbjörg Sveinsdóttir boðið sig fram, en hún dró framboð sitt til baka og lýsti yfir stuðningi við Valgerði.

Samkvæmt Ragnari eru 200 manns á þinginu, en það er fjölmennasta kjördæmisþing flokksins í kjördæminu hingað til. Er það haldið í Skjólbreekku í Mývatnssveit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert