Aldrei upplifað eins mikinn stuðning

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist ekki hafa fundið fyrir eins miklum stuðningi og velvild frá almenningi og síðustu misseri.

„Ég vona að ég njóti breiðs stuðnings í flokknum vegna þess að það er samstaða flokksins og baklandið sem hefur gert mér kleift að hafa betur í þessum stóru málum sem ég hef barist fyrir í pólitíkinni,“ sagði Sigmundur Davíð í viðtali við Sprengisand á Bylgjunni.

Hann sagðist einnig telja að líkurnar hefðu aukist á því að ríkið eignaðist Arion banka og yrði því komið með alla þrjá bankana í sínar hendur. „Það held ég að verði mál sem verði til umræðu í þessum kosningum.“

Erfiður tími 

Hann vonast eftir því að ná kjöri aftur sem formaður Framsóknarflokksins og segir að fjöldi fólks hafi komið að máli við sig og lýst yfir stuðningi við sig.

„Ég upplifi gríðarlega mikinn stuðning, meiri en nokkru sinni áður. Þetta hefur verið mér gríðarlega mikils virði, því auðvitað hefur þetta verið erfiður tími. Þetta hefur gefið mér einstaklega mikinn kraft sem ég mun nýta í minni pólitísku baráttu,“ sagði Sigmundur.

Náð mjög miklum árangri

Spurður hvort það væri  flokknum til hagsbóta að annar maður væri í brúnni eftir það sem á undan væri gengið sagði hann: „Ég velti alltaf fyrir mér hvað er best til þess fallið að ná árangri. Ég hef náð mjög miklum árangri með stór mál sem ég hef lagt áherslu á. Ef menn vilja láta kosningabaráttuna snúast um persónulegar árásir á mig og fjölskylduna þá gera þeir það. Ég mun svara því með því að benda á málin sem ég er að vinna að.“

Sigmundur sagði sinn helsta veikleika sem stjórnmálamanns vera að sökkva sér mjög mikið í þau mál sem hann ynni að hverju sinni og gerði því ekki nógu mikið af því að hitta fólk og ræða við það. Þessu vildi hann bæta úr á næsta kjörtímabili.

Segist vera feiminn

Hann viðurkenndi jafnframt að vera feiminn en þrátt fyrir það hefði hann mjög gaman af því að tala við fólk. „Ég er í eðli mínu feiminn og kannski nörd. Móðir mín og fleiri gerðu alltaf ráð fyrir því að ég færi í eitthvert háskólastarf. Yrði háskólakennari eða eitthvað slíkt.“

Margir vel stæðir farið í stjórnmál

Spurður út í sambland stjórnmála og fjármála í tengslum við fjármál sín, sagði hann að margir vel stæðir einstaklingar hefðu farið út í stjórnmál. „Það hefði verið miklu meiri efnahagslegur ávinningur að gera eitthvað annað en maður fær ábyrgðartilfinningu gagnvart þeim sem standa ekki jafn vel og vill reyna að bæta stöðu þeirra. Það er mjög sterkt í konunni minni líka,“ sagði hann.

„Það fylgir því töluvert öryggi að vera vel stæður fjárhagslega. Það var tilfinning mín að það setti ákveðnar skyldur á herðar manna að gera eitthvað fyrir þá sem byggju ekki við sambærilegt öryggi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert