Flestir vilja fleiri flóttamenn

Flóttamenn koma til Íslands.
Flóttamenn koma til Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Mikill meirihluti Íslendinga telur að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til þess að hjálpa þeim sem eru á flótta undan stríði eða ofsóknum. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Maskína vann fyrir Amnesty International á Íslandi.

Samkvæmt könnuninni eru 74% þeirrar skoðunar og 85% eru hlynnt því að flóttafólk sem flýr stríð eða ofsóknir geti leitað hælis í öðrum löndum. Tæp 65% eru tilbúin að taka á móti flóttafólki í hverfið sitt samkvæmt henni. Þar af eru tæp 13% tilbúin að bjóða flóttafólk velkomið á heimili sitt. Þeir sem sögðust ekki vilja fá flóttafólk til Íslands mældust 14,5%.

Niðurstöðurnar eru bornar saman við alþjóðlega skoðanakönnun sem Amnesty International lét gera í maí í 27 löndum. Þar kom fram að 66% að meðaltali töldu ríkisstjórnir sínar þurfa að gera meira til þess að hjálpa þeim sem væru á flótta undan stríði og ofsóknum og 80% hlynnt því að þeir sem væru í þeirri stöðu ættu að gera leitað hælis í öðrum löndum.

Skoðanakönnun Maskínu var gerð dagana 22. júlí til 2. ágúst 2016 og náði til 1.159 einstaklinga á aldrinum 18-75 ára á landinu öllu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert