„Hugsunarleysi af minni hálfu“

Lilja Rafney Magnúsdóttir segir framkvæmdina hafa verið ranga en hvorki …
Lilja Rafney Magnúsdóttir segir framkvæmdina hafa verið ranga en hvorki mikill tími né peningar hafi farið í verkið. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir það hafa verið athugunarleysi af sinni hálfu að biðja starfsmann Alþingis að senda fyrir sig póst vegna forvals Vinstri grænna á Vestfjörðum og kannast ekki við að erfitt hafi verið að ná í sig vegna málsins.

„Það er ekkert athugavert við það að senda félögum sínum tölvupóst vegna forvalsins,“ segir Lilja Rafney og kveður innihaldið hafa verið hvatningu um að taka þátt í forvalinu ásamt ósk um stuðning í fyrsta sætið.

Hefði átt að bíða

„Það var hins vegar athugunarleysi að biðja starfsmann Alþingis, sem er ritari hjá okkur á skrifstofu Vinstri grænna hér í Austurstræti, um að senda póstinn fyrir mig.“ Hún hafi verið að verða of sein í ræðustól vegna búvörusamningsins og hafi því á hlaupum beðið hann um að senda póstinn af stað. „Það var hugsunarleysi af minni hálfu, því auðvitað hefði ég bara átt að bíða og gera þetta úr mínu tölvufangi þegar ég var búin í þessum umræðum.“

Hún hafi enda hafa sent póst á þessa sömu félaga úr sínu netfangi þegar umræðunum lauk þar sem hún  baðst velvirðingar á sendingunni og útskýrði hvað lá að baki.

Spurð hvort hún hafi þarna ekki nýtt sér þann aðstöðumun sem hún hafi sem þingmaður, segir hún hvorki mikinn tíma né peninga hafa farið í verkið. „Það var bara framkvæmdin því það liggur ekki mikil vinna þarna að baki. Ég baðst velvirðingar á þessu og mér þykir slæmt ef það er verið  að nýta sér þetta í pólitískum tilgangi til að gera mig tortryggilega.“

Má hvorki afrita né sýna kjörskrá 

Í forvarsreglum Vinstri grænna er tekið fram að frambjóðendur megi hvorki afrita kjörskrá né sýna hana öðrum og þá á að skila henni í lok forvals. Lilja Rafney segir notkun sína á kjörskránni hafa verið löglega. „Það var bara ég sem var með hana, en þessi starfsmaður sá um að ýta á enter. Feillinn var að biðja hann um það og á því baðst ég afsökunar, enda mun ég ekki, né ætla ég að nota starfsmenn Alþingis með einum eða neinum hætti.“

Lilja Rafney kannast ekki við að erfitt hafi verið að ná í sig um helgina, líkt og greint hefur verið frá í tengslum við fyrri fregnir af málinu. „Ég var í sundi í tvo tíma á laugardeginum og í ratleik með krökkunum í íþróttafélaginu, sem voru að halda upp á 110 ára afmæli íþróttafélagsins Stefnis á Suðureyri í klukkutíma.“ Þess utan hafi hún svarað öllum símtölum.

Sendi stuðningsmönnum póst frá netfangi alþingis

Lilja Rafney baðst afsökunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert