Réttindi aldraðra verði betur skilgreind

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Meðal annars er lögð áhersla á einföldun almannatryggingakerfisins þar sem réttindi aldraðra verði betur skilgreind í tillögum samstarfsnefndar um málefni aldraðra sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur fengið í hendur. Tillögurnar kveða á um þau atriði sem nefndin telur að ráðherra eigi að setja í forgang við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum aldraðra á næstu árum. Nefndin hefur unnið að mótun tillagnanna í rúmt ár.

„Einnig er fjallað um rétt aldraðra til sjálfstæðrar búsetu og sjálfræðis, hvort sem um er að ræða búsetu á eigin heimili eða á öldrunarheimili. Þá skuli öldruðum gert kleift að aðlaga sig breyttum aðstæðum og nýta sér úrræði/lausnir sem auka sjálfsbjargarmöguleika þeirra. Jafnframt telur nefndin mikilvægt að sett verði gæðaviðmið á öllum sviðum þjónustu við aldraða, ásamt því að auka upplýsingagjöf og eftirlit með gæðum þjónustunnar,“ segir í fréttatilkynningu.

Tillögur samstarfsnefndarinnar eru settar fram í ellefu liðum:

  • Einföldun almannatryggingakerfisins.
  • Heilsueflingu og aukinni virkni aldraðra.
  • Rétti aldraðra til sjálfstæðrar búsetu og sjálfræðis.
  • Mikilvægi nýsköpunar og tækni í þjónustu við aldraða.
  • Setningu gæðaviðmiða fyrir þjónustu við aldraða.
  • Eftirliti með gæðum þjónustu við aldraða.
  • Stöðugleika og aukinni hæfni starfsfólks í öldrunarþjónustu.
  • Stefnu og úrbótum í málefnum aldraðra með heilabilun.
  • Stofnun upplýsingavefjar um öldrun og aldraða.
  • Réttindagæslu aldraðra.
  • Umfjöllun um óljós ábyrgðarsvið þjónustuaðila, „grá svæði“ í þjónustu við aldraða og áherslu á notendasamráð.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert