Snúin og þung staða hjá kennurum

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara (lengst til hægri).
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara (lengst til hægri). mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, stöðuna erfiða eftir að kennarar felldu nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga.

„Hún er mjög snúin og þung en þetta er eitthvað sem við verðum að vinna úr,“ segir Ólafur.

Frétt mbl.is: Grunnskólakennarar felldu kjarasamning

Þetta er í annað sinn sem kennarar fella nýjan kjarasamning í atkvæðagreiðslu.

Ólafur kveðst hafa talið atkvæðagreiðsluna geta brugðið til beggja vona. „Ég hafði alveg eins mikla tilfinningu fyrir því að þetta yrði samþykkt eins og fellt. Það er ljóst að það er ekki mikið meira í boði en þetta er staðan.“

Breyttir tímar út frá samfélagsmiðlum

Aðspurður segir hann að skiptar skoðanir hafi verið á samningnum sem var lagður fram, eins og atkvæðagreiðslan ber vott um. „Það eru líka breyttir tímar út frá samfélagsmiðlum. Það er miklu auðveldara að heyra hvernig þetta liggur. Svo veit maður aldrei hvað það nær langt út. Stundum er það lítill kjarni, þannig að maður veit ekkert hvað er á bak við það. Auðvitað vissum við að það voru ekkert allir glaðir,“ greinir hann frá.

Ekki nægilegar launahækkanir

Að sögn Ólafs voru mismunandi ástæður hjá þeim sem felldu samninginn. Hann hugsar þó að flestir hafi átt það sameiginlegt að hafa talið launahækkanirnar ekki nógu miklar til ársins 2019. „Ég held að það sé það sem við heyrum mest af.“

Hugsanlega vísað til ríkissáttasemjara

Næstu skref segir hann vera að setjast niður og velta fyrir sér möguleikunum í stöðunni. Einn er sá að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. „Við þurfum að skoða allar leiðir sem geta verið í boði. Hvort það er að vísa málinu til sáttasemjara verður að koma í ljós. Það er alla vega ljóst að það er samningslaust og þá er eðlilegt að hitta sveitarfélögin í framhaldinu og sjá hvernig staðan er hjá þeim líka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert