Vel tekist til við sölu eigna

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Golli

Hvenær er besti tíminn til þess að selja fasteignir? Er það ekki einmitt þegar útlit er fyrir að fasteignaverð fari hækkandi? Að þessu spurði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í sérstakri umræðu sem fram fór á Alþingi í dag um sölu á eignum sem slitabú föllnu bankanna afhentu ríkinu sem stöðugleikaframlög í tengslum við afnám fjármagnshafta.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var málshefjandi. Gerði hún meðal annars athugasemd við að hlutur ríkisins í fasteignafélaginu Reitum yrði seldur þegar gert væri ráð fyrir hækkandi fasteignaverði. Spurði hún hvort ekki væri rétt að bíða með söluna og fá þar með betra verð fyrir hann. Katrín gerði einnig athugasemd við stuttan útboðsferil og að hraði væri hugsanlega látinn ráða för við sölu eignanna.

Bjarni sagði að það þætti að sama skapi ekki góður tími til þess að selja fasteignir þegar útlit væri fyrir lækkandi fasteignaverð. Gera mætti ráð fyrir að spár um hækkandi fasteignaverð myndu endurspeglast í því verði sem fengist fyrir eignirnar. Bjarni sagðist telja að vel hafi tekist til við framkvæmd sölumeðferðar á ólíkum eignum. Aldrei hafi verið ætlun hans að hafa sterka skoðun á því nákvæmlega hvernig félagið Lindarhvoll, sem falin var umsýsla eignanna og sala þeirra, ætti að ná þeim markmiðum sem því væru sett af stjórnvöldum.

Ætlunin hafi aldrei verið að gefa Lindarhvoli fyrirmæli um útboðsfresti eða hvernig ætti að taka afstöðu til einstakra bjóðenda þegar leitað væri að hagstæðasta tilboðinu. Félaginu hafi verið falið að sjá um söluna innan mjög ákveðins ramma. Miðað við þær sölur sem átt hefðu sér stað væri ekki að sjá annað en að ágætisverð hafi fengist fyrir viðkomandi eignir miðað við markaðsverðið og söluverðið. Síðan tekið hafi verið við stöðugleikaframlögum hafi greiðslur upp á 57 milljarða króna skilað sér inn á stöðugleikareikning ríkissjóðs.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert