Fróaði sér fyrir utan grunnskóla

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í nótt erlendan ferðamann sem grunaður er um blygðunarsemisbrot í bíl við Engjaveg á Selfossi í gærdag. Lögreglu á Suðurlandi bárust í gær myndir og myndskeið af athæfi mannsins í bíl sínum, sem leiddu til handtöku mannsins þar sem hann var að búast til brottfarar af landinu.

Á fréttavef DV er greint frá því að hópur nemenda við Fjölbrautaskóla Suðurlands hafi í hádeginu í gær orð var við nakinn ferðamann í bíl fyrir utan Vallaskóla og íþróttahúsið Iðu á Selfossi. Nemendurnir urðu þess áskynja að maðurinn stundaði þarna sjálfsfróun og tóku upp stutt myndband sem þau fóru með til lögreglu.

Maðurinn er nú vistaður í fangageymslum á Selfossi, en til stendur að  yfirheyra hann síðar í dag. Málið er nú til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi, sem staðfestir að það sé litið alvarlegum augum

Í tilkynningu frá lögreglu eru þeir sem telja sig búa yfir upplýsingum sem gagnast gætu við rannsóknina beðnir um að hafa samband við lögreglu í tölvupósti á netfanginu sudurland@logreglan.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert