Hreindýr birtist óvænt með fénu

Hreindýrið elti svarta á hvert sem hún fór. Kindurnar voru …
Hreindýrið elti svarta á hvert sem hún fór. Kindurnar voru ekki hrifnar af því nema sú svarta. Ljósmynd/Þórhallur Guðmundsson

„Þetta var ein belja sem kom þarna og var að elta svarta á,“ segir Daði Lange Friðriksson gangnamaður í Mývatnssveit. En í réttum í síðustu viku birtist hreindýr við Norðmelsgjá sem er á austur afrétti, ekki langt frá Dettifossi.

Sjaldgæft er að hreindýr sjáist á þessum slóðum.

„Þetta var línubrjótur,“ segir Daði.

Línubrjótur? Hvað þýðir það? „Það þýðir að dýrið hefur farið yfir sauðfjárveikivarnarlínu. Það kallast að vera línubrjótur.“

Það er óalgengt að sjá hreindýr á þessu svæði?

„Já, þetta er utan skilgreinda útbreiðslu hreindýra.

Það voru svo sem hreindýr hér í eldgamla daga. Ég ábyrgist ekki árið en það voru hreindýr hér á fyrri hluta síðustu aldar. En þetta dýr sást allt í einu í smalamennskunni og elti svarta á. Maður sá það vel að þegar hún tapaði þeirri svörtu að þá leitaði hún hennar. Kindunum var reyndar eitthvað illa við hana, nema kannski þessari svörtu sem virtist taka henni betur.

Þetta var á föstudagskvöldið.

Við geymum féð í aðhaldi yfir nótt, hreindýrið rann inní hólfið með fénu. Hún var bara í aðhaldi innanum rollurnar yfir nóttina. Við héldum fyrst að þetta væri tarfur en svo var ekki.

Þetta er í fyrsta skiptið sem ég smala hreindýri.“

Hvað varð um kúna?

„Hún fékk viðeigandi meðferð sem línubrjótar fá. Ég hafði samband við héraðsdýralækni og hann gaf það út að það þyrfti að fella beljuna. Það var gert,“ segir Daði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert