Fylgismenn flokka fá stóran staf

Nýjar ritreglur verða kenndar í skólum landsins og virtar í …
Nýjar ritreglur verða kenndar í skólum landsins og virtar í útgáfu opinberra aðila. mbl.is/Eggert

„Píratar“ skal nú undantekningalaust skrifa með stórum staf samkvæmt nýjum íslenskum ritreglum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsti í sumar. Fyrir breytinguna fór það eftir hvort talað væri um flokkinn eða stuðningsmenn hans hvort rita skyldi stóran eða lítinn staf.

Íslensk málnefnd semur ritreglurnar en þær gilda um stafsetningarkennslu í skólum og útgefið efni á vegum hins opinbera. Reglunum hafði ekki verið breytt frá því árið 1977 þegar nýjar voru auglýstar 6. júní í sumar.

Fram að þessu hafa reglurnar kveðið á um að rita skuli stóran staf í upphafi nafna stjórnmálaflokka eins og Samfylkingarinnar, Íhaldsflokksins og Repúblikanaflokksins. Aftur á móti hefur átt að skrifa heiti fylgismanna flokkanna með litlum staf; „samfylkingarkona“, „íhaldsmaður“, og „repúblikani“. Í tilviki Pírata hefur þessi regla þýtt að þegar átt er við flokkinn skal tala um „Pírata“ með stórum staf en „pírata“ með litlum staf ef rætt er um fylgismenn hans.

Þetta breytist með nýju ritreglunum því nú skal skrifa heiti fylgismanna flokkanna með stórum staf. Nú skal því tala um „Sjálfstæðismenn“ og „Demókrata“ svo dæmi séu nefnd. Þannig verður talað um „Pírata“ með stórum staf, óháð því hvort átt er við flokkinn eða fylgismenn hans.

Eftir sem áður eru heiti fylgismanna ákveðinna stjórnmálaviðhorfa rituð með litlum staf. Þannig skal tala um „stalínista“ og „maóista“ jafnvel þó að heitin séu dregin af sérnöfnum.

„Sígaunar“ og „Arabar“ með stórum staf

Önnur breyting í nýju ritreglunum er á rithætti heita þjóðarbrota og þjóðflokka. Fram að þessu hefur átt að skrifa heiti þjóðflokka og kynstofna eins og „araba“, „inúíta“ og „gyðinga“ með litlum staf. Í nýju reglunum eru þessi heiti hins vegar sett undir sama hatt og heiti þjóða og þjóðarbrota og rita þau með stórum staf. Nú skal skrifa „Arabar“ og „Sígaunar“ svo dæmi séu tekin.

Í tilfelli „gyðinga“ fer það þó eftir samhengi hvort rita skal stóran eða lítinn staf í upphafi orðs. Heiti fylgismanna trúarbragða eru áfram rituð með litlum staf og því skal tala um „gyðinga“ í því samhengi. Ef hins vegar er átt við sögulega þjóðflokkinn „Gyðinga“ skal rita það með stórum staf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert