Ríki og borg hefji viðræður sem fyrst

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/RAX

Á borgarráðsfundi í morgun var lagt fram bréf innanríkisráðherra til borgarstjóra þar sem óskað er eftir því að ríkið og Reykjavíkurborg hefji sem fyrst formlegar viðræður um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Allir flokkar, að Framsóknar og flugvallarvinum undanskyldum, vildu samkvæmt bókun sinni einskorða samningaviðræður borgarstjóra við niðurstöðu Rögnunefndarinnar. Flokkurinn segist í tilkynningu telja það algerlega óásættanlegt að viðræðurnar einskorðist við staðarval samkvæmt niðurstöðu þeirrar nefndar þar sem að hún skoðaði aldrei hagkvæmni þess að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina.

Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram bókun þar sem kemur fram að vinna Rögnunefndarinnar hafi aldrei snúist um að skoða hagkvæmni áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýrinni, né heldur hafi hagkvæmnismat verið skoðað við færslu innanlandaflugs til Keflavíkur.

 „Við getum því ekki stutt bókun meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem þrengir viðræðugrundvöll við ríkið við samningaviðræður á grundvelli Rögnunefndarinnar, enda er það ekki inntak bréfs Innanríkisráðherra, heldur þvert á móti," segir í bókuninni.

„Við styðjum þó allar samningatilraunir til að ná sátt um áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýrinni eins og bréfið ber raunverulega með sér, þar sem segir “..ganga verður út frá því að Reykjavíkurflugvöllur verði í Vatnsmýrinni um lengri tíma en til 2022.”

Í framhaldinu lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram tillögu þess efnis að aðalskipulag á flugvallarsvæðinu verði endurskoðað með það að markmiði að flugvöllurinn í Vatnsmýri verði settur aftur á skipulagið og að engar breytingar verði samþykktar á því svæði sem var undir braut 06/24, svokallaðri neyðarbrautar, á meðan að samningaviðræður borgarstjóra og innanríkisráðherra fara fram um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Þeirri tillögu var frestað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert