Innanlandsflug í Keflavík myndi skila miklu

Á hverjum degi lenda á bilinu 2.500 til 8.000 erlendir …
Á hverjum degi lenda á bilinu 2.500 til 8.000 erlendir ferðamenn á Keflavíkurflugvelli. Ef tengiflug þaðan út á land yrði álíka vinsælt og það er á Óslóarflugvelli þá myndu 500 til 1.500 farþegar á dag kjósa að fljúga þaðan og beint út á land. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forsvarsmenn ferðamála í Finnlandi, Noregi og Danmörku segja það skipta miklu máli að ferðamenn geti flogið út á land beint frá aðalflugvöllum landanna. Sá kostur er hins vegar ekki í boði fyrir ferðafólk á Íslandi. Þetta kemur fram í frétt á ferðavefnum Túrista.

Þoturnar sem taka á loft frá Keflavíkurflugvelli setja allar stefnuna á útlönd á meðan innanlandsflug er stór hluti af umferðinni um helstu flugvelli Norðurlanda og einnig annars staðar í Evrópu. Ferðamenn sem lenda á Óslóarflugvelli geta til að mynda flogið þaðan beint til á annars tugs norskra borga og bæja. Og þessar samgöngur eru afgerandi fyrir fyrir íbúa og aðkomufólk í landshlutum þessa langa lands að mati Stein Ove Rolland, talsmanns ferðamálaráðs Noregs.

„Óslóarflugvöllur er klárlega mikilvægasta gáttin fyrir ferðamenn inn í Noregi en við viljum að þeir upplifi meira en bara höfuðborgina. Þeir eiga líka að sjá Bergen og firðina, fara til Stavanger, Þrándheims eða Bodö, Tromsö, Lófóten o.s.frv. Flugsamgöngurnar á milli Óslóar og þessara staða eru því þýðingarmiklar. Þær binda Noreg og útlandið saman," segir hann í samtali við Túrista.

Gætu fyllt nokkrar Bomdardier á dag í Keflavík 

Á hverjum degi lenda á bilinu 2.500 til 8.000 erlendir ferðamenn á Keflavíkurflugvelli og 1 til 2 þúsund Íslendingar. Ef skiptiflug þaðan út á land yrði álíka vinsælt og það er á Óslóarflugvelli þá myndu 500 til 1.500 farþegar á dag kjósa að fljúga þaðan og beint út á land. En þar sem vegalengdirnar eru í mörgum tilfellum styttri hér en í Noregi er óhætt að fullyrða að svo mikil yrði hlutdeild skiptifarþega í innanlandsflugi ekki á Keflavíkurflugvelli. Ef vægi þess yrði hins vegar fjórðungur af því sem þekkist í Noregi þá myndu skiptifarþegar í innanlandsflugi á Keflavíkurflugvelli daglega fylla tvær til sex Bombardier Q400-vélar eins og Flugfélag Íslands notar.

Með innanlandsflugi frá Keflavík yrði flug til útlanda líka einfaldari kostur fyrir íbúa víða um land. Austfirðingur sem keyrir í dag 700 kílómetra frá heimili að Keflavíkurflugvelli gæti þá hafið ferðalagið á Egilsstaðaflugvelli eða á Höfn, innritað töskurnar sínar þar og sótt þær á ný við komuna til útlanda líkt og íbúar í hinum dreifðari byggðum Noregs og Finnlands geta gert þegar þeir fljúga til og frá útlöndum, segir í frétt Túrista en fréttina má lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert