Sakar saksóknara um mismunun

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, í Hæstarétti í dag.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, í Hæstarétti í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki er hægt að sakfella Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, fyrir lögbrot vegna náinna samskipta hans við Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóra bankans. Verjandi Sigurðar sakaði saksóknara um mismunun í garð skjólstæðings síns þegar umfangsmikið markaðsmisnotkunarmál Kaupþings var tekið fyrir í Hæstarétti í morgun.

Sigurður og Hreiðar Már voru á meðal sjö Kaupþingsmanna sem voru sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Þeir höfðu báðir hlotið þunga dóma í Al Thani-málinu. Því var Hreiðari Má ekki gerð frekari refsing en Sigurður fékk eins árs refsiauka.

Hreiðar Már Sigurðsson í Hæstarétti í dag.
Hreiðar Már Sigurðsson í Hæstarétti í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar, krefst þess að Hæstiréttur snúi dómi Héraðsdóms við og sýkni skjólstæðing sinn. Hann hafi ekki haft neina aðkomu að meintum brotum og ekki komi fram í ákæru í málinu hvernig aðkoma hans hafi átt að vera.

Kaupþingsfólkinu var gefið að sök að hafa haldið uppi verði á hlutabréfum bankans með því að láta hann kaupa bréf í sjálfum sér og selja þau svo til félaga sem fengu lán frá bankanum gegn litlum eða engum veðum þegar eignarhlutdeild bankans í sjálfum sér nálgaðist mörk sem hefði gert honum skylt að tilkynna um það.

Stjórnarformenn hinna bankanna ekki ákærðir

Benti Gestur á að mikið hafi verið gert með að Sigurður hafi fengið pósta frá sviði eigin viðskipta bankans sem annaðist viðskiptin með bréf bankans um stöðu bréfanna. Það væri hins vegar ekki sönnun fyrir því að Sigurður hafi vitað um refsiverða háttsemi. Engin gögn sýni fram á að hann hafi verið í samskiptum við deildina eða gefið fyrirskipanir.

„Sigurður og Hreiðar Már eru ekki sami maðurinn,“ sagði Gestur þegar hann benti á það væri ekki sönnun fyrir sekt Sigurðar að hann hefði haft náin samskipti við forstjóra bankans. Það væri ekki gild röksemdafærsla hjá saksóknara að segja að það væri fjarri allri skynsemi að Sigurði hafi ekki verið kunnugt um starfsemi eigin viðskipta bankans.

Þá hélt Gestur því fram að Sigurður sætti mismunun af hendi saksóknara. Í sambærilegum málum vegna Landsbankans og Glitnis hafi stjórnarformenn bankanna ekki verið ákærðir. Í tilfelli Glitnis hafi þó verið gögn um að stjórnarformaður hafi samþykkt með eigin hendi lánasamninga sem bankastjóri bar undir hann. Engin gögn sýni hins vegar fram á afskipti Sigurðar af viðskiptunum sem hann var dæmdur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert